Madonna birti mynd á Instagram í dag þar sem hún sagði þau loksins hafa grafið stríðsöxina. Hún hafi farið að sjá hann spila í skemmtiþættinum Saturday Night Live og ákveðið í lok þáttarins að fara baksviðs og ná á rokkarann.
„Mér sárnaði að maður sem ég liti svo upp til skyldi deila því opinberlega hve illa honum líkaði við mig sem listamann,“ skrifar hún í færslunni.
Erjur Madonnu og Eltons má rekja til Q-verðlaunahátíðarinnar árið 2004, þegar hann sakaði hana um að „mæma“ þegar hún flytti lögin sín, í þakkarræðu sinni fyrir klassísk lagasmíð. Síðan þá hafa þau skipst á úthúðunum um hvert annað opinberlega.
Féllust í faðma
Á Golden Globe verðlaunahátíðinni árið 2012 skaut Madonna Elton ref fyrir rass í flokknum besta frumsamda lag fyrir lagið Masterpiece úr myndinni W.E. en framlag Eltons var lagið Hello Hello úr myndinni Gnomeo & Juliet.
Í viðtali á rauða dreglinum rétt fyrir verðlaunahátíðina sagði Elton Madonnu ekki eiga „séns í helvíti“ á að sigra hann.
Eftir færslu Madonnu virðast þau þó hafa náð sáttum og grafið stríðsöxina, eins og hún orðar það, eftir að hafa mæst á setti SNL laugardaginn.
„Þegar ég mætti honum var það fyrsta sem hann sagði við mig: Fyrirgefðu mér, og þar með hrundi veggurinn milli okkar. Fyrirgefning er áhrifaríkt fyrirbæri. Innan tíðar féllumst við í faðma,“ segir í færslu Madonnu.
Þá sagði hún Elton hafa skrifað fyrir hana lag og beðið hana um samstarf.