Handbolti

„Stelpurnar hafa mátt þola margt ó­sann­gjarnt“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnar á hliðarlínunni í kvöld.
Arnar á hliðarlínunni í kvöld. vísir/hulda margrét

„Þetta var mjög sérstakt. Að spila landsleik fyrir framan tómt hús á Íslandi er mjög sérstakt,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari alvarlegur á svip eftir sigurinn stóra á Ísrael í kvöld.

Þetta var fyrri leikur liðanna í umspilinu en þessi tólf marka sigur gerir það að verkum að liðið er svo gott sem komið inn á HM. Þau mætast aftur annað kvöld.

„Það var smá skjálfti í upphafi en svo náðum við tökum á þessu. Þær voru mjög flottar miðað við undirbúninginn. Seinni hálfleikur hefði mátt vera betri en heilt yfir fagmannleg frammistaða.“

Eins og Arnar segir var undirbúningurinn mjög óhefðbundinn. Lokaðar æfingar, engir fjölmiðlahittingar og svo fengu stelpurnar alls konar skilaboð fyrir leikinn víða að.

„Ég skal viðurkenna að ég var ekkert alveg viss hvernig þetta færi ofan í liðið. Ég vissi að ef við myndum ná okkar leik þá værum við sterkari,“ sagði Arnar en margt í aðdragandanum hefur truflað hann.

„Það sem þessar stelpur hafa mátt þola frá hinum og þessum á mjög ósanngjarnan hátt í nánast öllum tilfellum.“

Síðasta stundarfjórðunginn var sparkað í hurðir svo glumdi í húsinu. Mjög óþægilegt fyrir alla innan dyra.

„Þetta var sérstakt á allan hátt. Ég veit ekki hvað gekk á þarna fyrir utan en ég hefði auðvitað kosið að þetta hefði verið stoppað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×