Körfubolti

„Þeir spila mjög fast og komast upp með það“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristinn í leik með Val fyrr í vetur.
Kristinn í leik með Val fyrr í vetur. Vísir / Diego

Kristinn Pálsson sagði Valsara hafa hengt haus of snemma í leiknum gegn Grindavík í kvöld. Hann kallaði eftir samræmi í dómgæslu í viðtali eftir leik.

Kristinn skoraði 21 stig í leiknum í kvöld, var mjög öflugur í fyrri hálfleik en var í meiri vandræðum í þeim síðari.

„Svipað og í síðasta leik, mér fannst við brotna og vera farnir að hengja haus þegar þeir ná áhlaupi. Kannski ekki brotna en farnir að hengja haus ansi fljótlega í dag,“ sagði Kristinn í viðtali á Stöð 2 Sport eftir leik.

Hann gat ekki svarað hvað það væri í varnarleik Grindvíkinga sem Valsmenn væru í vandræðum með, en sagði Grindavík komast upp með að spila fast.

„Þeir spila mjög fast og komast upp með það. Eitthvað stundum sem við fáum ekki og mér finnst að það mætti vera jafnara þar. Ég ætla ekki að kvarta í dómurum núna, við vorum slakari í dag og þeir áttu þetta skilið.“

Grindavík náði áhlaupi í fjórða leikhluta, skoruðu tíu stig í röð.

„Aðallega að við ætluðum að svara hverri körfu sem þeir settu, gera það fljótt og vorum svolítið fljótir á okkur. Við fórum í erfið skot í staðinn fyrir að hreyfa boltann vel og opna þá auðveldari.“

Kristinn fékk töluvert af köllum úr stúkunni og á vellinum fyrir meintan leikaraskap sem hann gaf þó lítið fyrir.

„Ég er ekkert að kasta mér í gólfið af því bara. Í tveimur skotum í dag fannst mér vera brotið á mér en það er dómaranna að meta það. Það er bara áfram gakk og við ætlum að taka leikinn á mánudaginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×