Erlent

Létt fólk hvatt til að halda sig innan­dyra til að fjúka ekki

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Vindhraði gæti náð rúmlega fjörutíu metrum á sekúndum í Peking um helgina.
Vindhraði gæti náð rúmlega fjörutíu metrum á sekúndum í Peking um helgina. AP/Ng Han Guan

Kröftugir vindar í norðanverðu Kína hafa valdið miklu tjóni og er fólk sem er léttara en fimmtíu kíló hvatt til þess að halda sig innandyra til að fjúka ekki.

Vindhraði mun ná rúmlega fjörutíu metrum á sekúndu í höfuðborginni Peking og nærliggjandi borgum í Hebeihéraði um helgina. Appelsínugul viðvörun hefur verið gefin út af kínversku veðurstofunni í höfuðborginni í fyrsta sinn í áratug. Ferðamannastöðum og almenningsgörðum hefur verið lokað yfir helgina og flugferðum og lestarferðum aflýst.

Kínverska veðurstofan hefur gefið það út að vindhraðinn gæti slegið met frá árinu 1951 um helgina. Sterkir vindar frá köldu hringiðukerfi yfir Mongólíu valda oft óveðri í norðvesturhluta Kína.

Kínverska veðurstofan mælir vindhraða á sautján stiga skala. Vindur sem nemur ellefu á skalanum veldur „alvarlegu tjóni“ og vindur sem nemur tólf hefur í för með sér „stórfellda eyðileggingu.“ Um helgina er spáð vindum á bili ellefu til þrettán stiga samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins.

Samkvæmt því sem kínverska ríkisútvarpið greinir frá hefur að minnsta kosti 413 flugferðum frá alþjóðaflugvellinum í Peking verið aflýst auk þess sem járnbrautalestalestir til og frá flugvellinum hafa verið kyrrsettar.

Hundruð trjáa verið rifin upp með rótum og ýmis farartæki orðið fyrir tjóni. Engin slys á fólki verið tilkynnt til yfirvalda enn sem komið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×