Enski boltinn

Dramatík í Nottingham, Leicester fékk loks stig og Asensio klúðraði tveimur vítum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Abdoulaye Doucoure fagnar sigurmarki sínu gegn Nottingham Forest.
Abdoulaye Doucoure fagnar sigurmarki sínu gegn Nottingham Forest. getty/Shaun Botterill

Fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma þegar Abdoulaye Doucoure skoraði sigurmark Everton gegn Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölur 0-1, Everton í vil.

Flest benti til að leikurinn myndi enda með markalausu jafntefli en á 94. mínútu tapaði Murillo, varnarmaður Forest, boltanum klaufalega. Varamaðurinn Dwight McNeil átti hárnákvæma sendingu inn fyrir vörn heimamanna á Doucoure sem skoraði og tryggði gestunum stigin þrjú.

Þetta var annað tap Forest í röð en liðið er í 3. sæti deildarinnar. Everton er í 14. sætinu.

Fyrsta stigið síðan í lok janúar

Eftir að hafa tapað átta leikjum í röð án þess að skora fékk Leicester City loks stig þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Brighton.

Joao Pedro kom Brighton tvisvar sinnum yfir gegn með mörkum af vítapunktinum en Leicester jafnaði í tvígang, fyrst Stephy Mavididi og svo Caleb Okoli.

Þetta er fyrsta stigið sem Leicester nær í síðan liðið vann Tottenham, 1-2, 26. janúar. Leicester er samt enn í vonlausum málum; í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar með aðeins átján stig, fjórtán stigum frá öruggu sæti.

Brighton, sem hefur aðeins fengið tvö stig í síðustu fjórum leikjum, er í 9. sæti.

Þrjú mörk frá varamönnum

Botnlið Southampton hélt jöfnu gegn Aston Villa í 73 mínútur en fékk svo á sig þrjú mörk undir lokin. Lokatölur 0-3, Villa í vil.

Aaron Ramsdale, markvörður Southampton, varði víti frá Marco Asensio á 69. mínútu en fjórum mínútum síðar kom Ollie Watkins Villa yfir. Donyell Malen bætti svo öðru marki við á 79. mínútu en þeir Watkins komu báðir inn á sem varamenn á 66. mínútu.

Í uppbótartíma fékk Villa annað víti. Asensio fór aftur á punktinn en aftur varði Ramsdale. John McGinn fylgdi hins vegar á eftir og skoraði. Þrír varamenn komust því á blað hjá Villa í dag.

Með sigrinum komst Villa upp í 5. sæti deildarinnar. Southampton er á botninum en liðið féll formlega um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×