Enski boltinn

Enginn komið að fleiri mörkum á 38 leikja tíma­bili en Salah

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah fagnar með Luis Díaz eftir að hafa lagt upp mark fyrir hann.
Mohamed Salah fagnar með Luis Díaz eftir að hafa lagt upp mark fyrir hann. getty/Liverpool FC

Mohamed Salah sló met þegar hann lagði upp mark fyrir Luis Díaz í leik Liverpool og West Ham United í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Á 18. mínútu leiksins á Anfield sendi Salah boltann fyrir á Díaz sem skoraði með skoti af stuttu færi.

Þetta var átjánda stoðsending Salahs í ensku úrvalsdeildinni í vetur en auk þess hefur hann skorað 27 mörk.

Egyptinn hefur því komið með beinum hætti að 45 mörkum í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Það er met hjá einum leikmanni á 38 leikja tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Fyrir leikinn deildu Erling Haaland og Thierry Henry metinu með Salah sem hefur nú slegið það.

Salah á eflaust enn eftir að bæta við þessa tölfræði því Liverpool á enn eftir að leika sex deildarleiki á tímabilinu auk þess sem leikurinn gegn West Ham stendur enn yfir. Staðan í hálfleik er 1-0, Liverpool í vil.

Salah skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Liverpool á föstudaginn. Gamli samningurinn hans átti að renna út í sumar og óvíst var hvort Salah yrði áfram hjá Liverpool.

Ef Liverpool vinnur West Ham nær liðið þrettán stiga forskoti á Arsenal á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×