Skytturnar í undanúr­slit Meistara­deildar Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Saka klúðraði vítaspyrnu en bætti upp fyrir mistökin og Arsenal er komið í undanúrslit.
Saka klúðraði vítaspyrnu en bætti upp fyrir mistökin og Arsenal er komið í undanúrslit. EPA-EFE/Mariscal

Evrópumeistarar Real Madríd eru úr leik eftir 1-2 tap gegn Skyttunum hans Mikel Arteta á heimavelli í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Arsenal vinnur einvígið 5-1 eftir frábæran 3-0 sigur á heimavelli.

Það var ljóst að Real þurfti mörk í kvöld og það sem fyrst. Strax á annarri mínútu leiksins kom Kylian Mbappé boltanum í netið en hann var augljóslega rangstæður. Það kveikti hins vegar í stuðningsfólki Real sem voru svo sannarlega klár í leik kvöldsins.

Eftir tíu mínútur átti sér stað ótrúlegt atvik en þá ákvað myndbandsdómari leiksins að senda dómara leiksins í skjáinn vegna atviks sem átti sér stað töluvert áður. Raul Asencio gerðist þá brotlegur innan vítateigs eftir hornspyrnu sem endaði í höndunum á Thibaut Courtois.

Vítaspyrna niðurstaðan og Bukayo Saka gat komið Arsenal í fjögurra marka forystu af vítapunktinum. Spyrna hans var hins vegar hreint út sagt ömurleg. Hann reyndi nánast að vippa boltanum í netið og Courtois varði nokkuð auðveldlega. Staðan enn markalaus og heimamenn komnir með blóð á tennurnar.

Ef það var ekki næg dómara-dramatík þá fengu heimamenn vítaspyrnu um miðbik fyrri hálfleiks. Í kjölfarið tók við hið klassíska myndbandsdómaratékk nema í þetta sinn stóð það yfir í fleiri mínútur. Á endanum, guð má vita hversu mörgum mínútum síðar, var dómari leiksins sendur í skjáinn og hætti hann við að dæma vítaspyrnu.

Segja má að illa hafi gengið að ná upp flæði í leiknum framan af enda leikurinn stöðvaður ótt og títt. Þá gerðu gestirnir hvað þeir gátu til að tefja. Staðan var markalaus í hálfleik og það sama var upp á teningnum í síðari hálfleik. 

Þegar 25 mínútur lifðu leiks gerði Saka svo út um einvígið. Sending Mikel Merino fann Saka sem tókst að vippa honum laglega yfir Courtois í markinu og staðan í einvíginu orðin 4-0 Arsenal í vil. Örskömmu síðar jafnaði Vinícius Júnior í leik kvöldsins eftir sjaldséð mistök William Saliba sem gáði ekki að sér í öftustu línu. 

Heimamenn gerðu máttlitla tilraun til að komast yfir en það gerðu gestirnir hins vegar í uppbótartíma. Gabriel Martinelli með markið eftir undirbúning framherjans Merino. Lokatölur 1-2 og Arsenal leggur ríkjandi Evrópumeistara sannfærandi 5-1 samanlagt. Sætið í undanúrslit er því klárt en þar mæta Skytturnar gríðarlega öflugu liði París Saint-Germain.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira