Innlent

Há­værar fram­kvæmdir stöðvaðar

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í dag, skírdag. 
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í dag, skírdag.  Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði tvisvar sinnum í dag afskipti af einstaklingum vegna háværra framkvæmda. Sérstaklega hávaðasamar framkvæmdir eru lögum samkvæmt bannaðar á helgidögum. 

Í báðum tilfellum ræddi lögregla við viðkomandi einstakling og honum gert að stöðva framkvæmdirnar. 

Í lögregluumdæmi 1, sem þjónustar Austurbæ, Miðbæ, Vesturbæ og Seltjarnarnes, var óskað eftir aðstoð vegna fundar á byssuskoti á leikvelli. Byssuskotið var haldlagt af lögreglu. Nánari upplýsingar liggja ekki fyrir í fréttaskeyti lögreglunnar. 

Köstuðu grjóti í átt að sundlaugagestum

Þá var lögregla kölluð til vegna einstaklings sem hafði komið inn í húsnæði fyrirtækis og haft uppi hótanir við starfsfólk og var starfsfólki brugðið og óttaslegið. Þegar lögregla kom á vettvang var viðkomandi farinn en vitað er hver einstaklingurinn er. Málið er í rannsókn.

Lögregla hafði einnig afskipti af einstaklingi sem hafði truflandi áhrif á starfsemi fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra og neyðarlínunnar. Fram kemur í skeytinu að háttsemin hafi valdið truflunum á fjarskiptum en slíkt er bannað með lögum.

Í lögregluumdæmi 2, sem þjónustar Hafnarfjörð og Garðabæ, var lögreglu tilkynnt um einstaklinga við sundlaug sem köstuðu grjóti yfir girðingu laugarinnar en grjótið hafnaði nærri sundlaugagestum ofan í sundlauginni. Þeir voru farnir er lögreglu bar að garði. 

Í lögregluumdæmi 4, sem þjónustar Grafarvog, Mosfellsbæ og Árbæ, var tilkynnt um umferðaróhapp í útjaðri höfuðborgarinnar. Þegar lögregla kom á vettvang var ökumaður með öllu óviðræðuhæfur en hann var handtekinn, grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur, og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Viðkomandi er einnig grunaður um vörslu fíkniefna sem og að hafa ekið sviptur ökuréttindum. Málið er í rannsókn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×