Innlent

Gallar í ný­byggingum: Eig­endur nýrra í­búða eigi ríkari rétt

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hildur Ýr Viðarsdóttir, formaður Húseigendafélagsins.
Hildur Ýr Viðarsdóttir, formaður Húseigendafélagsins.

Formaður Húseigendafélagsins segir að allur gangur sé á því hvernig kaupendum íbúða í nýjum fjölbýlishúsum takist að tryggja rétt sinn þegar upp koma lekavandræði. Fjöldi dæma er um lekavandræði í nýlegum fjölbýlishúsum.

Greint var frá því í Morgunblaðinu á dögunum að verið væri að gera við fjölbýlishús í Vogabyggð í Reykjavík vegna lekavandamála. Húsið er einungis sex ára gamalt, var byggt árið 2019. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru fleiri tilvik lekavandræða í nýlegum fjölbýlishúsum og dæmi um að húsfélög stefni byggingaraðilum vegna galla. 

Hildur Ýr Viðarsdóttir formaður Húseigendafélagsins segir að allur gangur sé á því hvernig kaupendum takist að tryggja rétt sinn í slíkum tilvikum.  Algengt sé að slík mál leysist. 

„Jafnvel með aðkomu lögmanna, að það sé fundinn einhver flötur á þessu. Það getur verið að starfsábyrgð, tryggingar hönnuðar eða byggingarstjóra eigi við og það greiðist úr þeim en þetta getur verið svolítill fasi sem kaupendur þurfa að fara í gegnum ef það eru gallar í nýbyggingum þá þarf að láta meta það og kaupandinn getur þurft að leita réttar síns og það getur jafnvel endað fyrir dómstólum.“

Hildur segir að kaupendur íbúða í glænýjum fjölbýlishúsum eigi að geta gengið út frá því að allt sé í lagi í húsunum. Enginn gallaþröskuldur gildi þegar keypt sé íbúð í nýbyggingu.

„Þannig að kaupandinn hann á rétt á því að fá afslátt af kaupverðinu eða skaðabætur ef það er galli í nýbyggingu. Þannig hann á ríkari rétt en þegar kaupandinn er að kaupa notaða fasteign. Það er alltaf eitthvað um það að það sé leitað til Húseigendafélagsins vegna galla í nýbyggingu og hefur verið undanfarin ár, þannig við höfum kannski ekki merkt aukningu en auðvitað er það þannig að fólk gerir ráð fyrir því að það sé allt í lagi þegar verið er að kaupa nýtt hús, sem er svo ekki alltaf raunin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×