Enski boltinn

Arteta ætlar ekki að hvíla Saka fyrir Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, tekur hér Bukayo Saka af velli í Meistaradeildarleik í vetur.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, tekur hér Bukayo Saka af velli í Meistaradeildarleik í vetur. Getty/Justin Setterfield

Mikel Arteta mun að eigin sögn ekki hvíla lykilmenn liðsins fyrir undanúrslitaleikina í Meistaradeildinni.

Arsenal sló Real Madrid út úr átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og komst því einu skrefi nær því að vinna Meistaradeildina í fyrsta skipti í sögu félagsins.

Arsenal er aftur á móti þrettán stigum á eftir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni og á aðeins tölfræðilega möguleika á því að vinna ensku deildina í ár.

Mörgum fyndist það rökrétt að hvíla leikmenn fyrir undanúrslitaleikina í Meistaradeildinni á móti Paris Saint Germain en franski stjórinn virðist ekki vera líklegur til þess.

Arsenal mætir Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og Liverpool verður meistari tapi Arsenal leiknum.

Bukayo Saka er nýkominn til baka eftir meiðsli og fékk högg í síðasta leik. Arteta segist samt ekki ætla að hvíla Saka fyrir leikina mikilvægu í Meistaradeildinni.

„Við getum ekki hugsað hlutina á þessum nótum þegar leikmennirnir eru heilir og vilja spila. Þá verða þeir að fá að spila,“ sagði Arteta.

„Þeir njóta sín best þegar þeir spila, ná með því upp stöðugleika og um leið eru þeir í góðu jafnvægi bæði tilfinningalega og líkamlega. Þeir eru þá í góðum takti og þá eru þeir bestir,“ sagði Arteta.

„Ef þeir eru ekki leikfærir þá þarf ekkert að ræða þetta. Ef þeir eru ekki í góðum gír þá munum við ekki spila þeim. Annars spilum við þeim,“ sagði Arteta.

Saka er gríðarlega mikilvægur fyrir Arsenal en hann hefur komið að 25 mörkum í 30 leikjum á leiktíðinni. Hann var mjög góður í seinni leiknum á móti Real Madrid og stóð sig einnig vel í 4-0 sigrinum á Ipswich Town um helgina.

Saka fékk samt slæmt högg en Arteta var ekki búinn að ákveða neitt með kvöldið þegar hann ræddi við blaðamenn á fjölmiðlafundi fyrir leikinn.

„Við verðum bara að bíða og sjá hvernig honum líður eftir æfinguna. Þetta var samt ekkert alvarlegt,“ sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×