Innlent

Þurrt og létt­skýjað á sumar­daginn fyrsta

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Góður sumardagur í Reykjavík.
Góður sumardagur í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir rigningarlausan sumardag fyrsta á suðvesturhorninu, þar sem hlýjast verður í dag. Spáð er austan og suðaustanátt 8-15 m/s sunnanlands, annars hægari vindi.

Lítilsháttar væta verður á Suðausturlandi og Austfjörðum en lengst af léttskýjað um landið norðan- og vestanvert. Hiti 5 til 15 stig yfir daginn, hlýjast suðvestantil.

Suðaustan 5-13 á morgun. Rigning suðaustantil, annars væta með köflum, en þurrt að mestu norðaustanlands. Hiti 5 til 13 stig, mildast norðaustantil.

Hugleiðingar veðurfræðings

Á vef Veðurstofunnar má finna eftirfarandi hugleiðingar veðurfræðings:

„Sumar og vetur frusu saman víða á Norður- og Austurlandi, en einungis á stöku stað sunnan heiða.

Annars byrjar sumarið með austlægri átt, víða 8-15 m/s í dag en hægari vindur norðanlands. Á Suðausturlandi og Austfjörðum verður skýjað að mestu og dálítil væta viðloðandi, en lengst af þurrt og bjart veður á norður- og vesturhluta landsins. Hiti 5 til 15 stig yfir daginn, hlýjast suðvestantil.

Í kvöld nálgast úrkomusvæði úr suðri og það fer að þykkna upp.

Suðaustan 5-13 m/s á morgun. Samfelld rigning suðaustantil, annars væta með köflum, en þurrt að mestu norðaustanlands. Hiti 5 til 13 stig, mildast norðaustantil.

Svo er litlar breytingar að sjá um helgina, milt veður og einhver væta sunnan- og vestanlands en vindur ekki tiltakanlega mikill.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×