Fótbolti

Ancelotti skammaði Endrick fyrir trúðslæti inn á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Endrick ætlaði að vera kaldur karl en það kom í bakið á honum. Hann fékk líka að heyra það frá Carlo Ancelotti.
Endrick ætlaði að vera kaldur karl en það kom í bakið á honum. Hann fékk líka að heyra það frá Carlo Ancelotti. Getty/Maria Gracia Jimenez/

Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, var ekki ánægður með stælana í brasilíska ungstirninu Endrick í síðasta leik spænska liðsins.

Real Madrid vann 1-0 sigur á Getafe og hélt sér inni í titilbaráttunni.

Hinn átján ára gamli Endrick fékk sitt fyrsta tækifæri í byrjunarliðinu í spænsku deildinni síðan hann kom til félagsins í júlí 2024.

Endrick fékk tvö góð færi til að skora í leiknum en nýtti þau ekki. Það seinna kom á 59. mínútu þegar hann var einn á móti markverði Getafe.

Endrick reyndi að lyfta boltanum yfir markvörðinn en mistókst það algjörlega og boltinn fór beint í hendur markvarðar Getafe. Ancelotti var allt annað en sáttur með strákinn og kallaði þetta trúðslæti.

„Hann fékk tvö færi. Hann hefði ekki getað gert betur í fyrra færinu og gæti hafa verið rangstæður í því síðara. Hann getur samt ekki verið að reyna svona hluti,“ sagði Carlo Ancelotti.

„Hann er ungur og verður að læra af þessu. Hann verður að skjóta á markið og hætta þessum trúðslátum. Það er ekkert pláss fyrir dramaklúbb í fótboltanum,“ sagði Ancelotti.

Endrick gat líka lagt upp mark fyrir Arda Güler sem hefði þá komið Real í 2-0 en reyndi frekar að skjóta sjálfur. Ancelotti tók Endrick af velli á 64. mínútu og setti Jude Bellingham inn á völlinn.

Brasilíski táningurinn hefur skorað sjö mörk í 33 leikjum í öllum keppnum en hann hefur verið að koma inn á sem varamaður.

Real Madrid er í öðru sæti í deildinni, fjórum stigum á eftir Barcelona, þegar fimm leikir eru eftir.

Næst á dagskrá er bikarúrslitaleikur á móti Barcelona í Sevilla á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×