Enski boltinn

Jón Daði skoraði og Victor vann Íslendingaslaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson skoraði fyrir Burton Albion í ensku C-deildinni í dag. Þetta var hans fyrsta deildarmark síðan í janúar.
Jón Daði Böðvarsson skoraði fyrir Burton Albion í ensku C-deildinni í dag. Þetta var hans fyrsta deildarmark síðan í janúar. Getty/James Baylis

Jón Daði Böðvarsson var á skotskónum í ensku C-deildinni í fótbolta í dag þegar Burton Albion fagnaði góðum sigri.

Burton Albion vann 2-1 heimasigur á Cambridge United en bæði lið spiluðu seinni hálfleikinn með tíu menn.

Jón Daði kom Burton í 1-0 á 48. mínútu en Elias Kachunga jafnaði metin fyrir Cambridge á 85. mínútu. Jón Daði var tekinn af velli í framhaldinu en Dylan Williams skoraði síðan sigurmarkið á þriðju mínútu í uppbótatíma.

Þetta var fimmta deildarmark Jóns Daða á leiktíðinni en það fyrsta síðan hann skoraði fjögur mörk í þremur leikjum í janúar. Burton er í tuttugasta sæti og þurfti nauðsynlega á stigum að halda.

Guðlaugur Victor Pálsson og félagar í Plymouth Argyle unnu 2-1 útisigur á Stefáni Teiti Þórðarsyni og félögum í Preston North End í ensku b-deildinni.

Báðir Íslendingarnir nældu sér í gult spjald í leiknum, Stefán Teitur strax á 30. mínútu en Guðlaugur Victor á 46. mínútu.

Mustapha Bundu kom Plymouth í 1-0 á 14. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Callum Wright skoraði annað markið á 75. mínútu en Emil Riis Jakobsen minnkaði muninn á 90. mínútu eftir að Stefán Teitur hafði verið tekinn af velli.

Preston er í tuttugasta sæti en þrátt fyrir sigurinn þá situr Plymouth enn í fallsæti.

Stockport County vann 3-2 endurkomusigur á heimavelli á móti Lincoln í ensku C-deildinni. Benoný Breki Andrésson var í byrjunarliðinu en var tekinn af velli í hálfleik þegar liðið var 2-0 undir.

Stockport skoraði þrjú mörk í seinni hálfleiknum og tryggði sér sigurinn. Jayden Fevrier, William Collar og Isaac Olaofe skoruðu mörkin en sá síðastnefnid kom inn á sem varamaður yfir okkar mann.

Jason Daði Svanþórsson lék allan leikinn þegar Grimsby gerði markalaust jafntefli á útivelli á móti Milton Keynes Dons í ensku d-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×