Nýja svínabúið, sem er á jörðinni Sölvastöðum er í eigu Ingva Stefánssonar og fjölskyldu á bænum Teigi í sömu sveit en Ingvi er jafnframt formaður svínabænda. Búið er það fyrsta, sem er byggt frá grunni út frá nýjustu kröfum um dýravelferð en það þýðir meðal annars að svínin hafa mjög mikið pláss og þau eru meira og minna í lausagöngu á búinu.
„Helstu staðreyndirnar eru kannski þær að það er þessi lausaganga á öllum stigum, sem eru auðvitað rosalega jákvætt upp á dýravelferðina að gera og annað slíkt, Við verðum með 400 gyltur en við erum með innan við 300 núna,” segir Ingvi.

Fréttamanni þótti algjörlega frábært að koma inn í nýja búið enda er að glæsilegt í alla staði og vel sást hvað svínunum leið vel inni í búinu í lausagöngunni.

Ingvi selur allt sitt svínakjöt til Kjarnafæðis Norðlenska og hann gæti selt miklu meira ef hann ætti meira kjöt.
„Já, klárlega, klárlega er eftirspurnin til staðar, þannig að markaðurinn er stækkandi já. Það er bara að borða íslenskt kjöt númer 1, 2 og 3, er það ekki bara málið,” segir Ingvi hlæjandi.

Synir Ingva vinna með pabba sínum í búinu og líkar vel að vera innan um svín alla daga.
„Mér finnst það bara mjög gaman og hef mikinn áhuga á þessu. Skemmtilegast er þegar svínin eru að gjóta og fá þá að taka á móti litlu grísunum og gera allt fínt fyrir þá,” segir Frans Heiðar Ingvason, 16 ára og tilvonandi svínabóndi.
