Bieber birti myndir af sér á Deplum í Instagram-færslu á miðnætti.

Lúxushótelið Deplar Farm er í Fljótunum á Tröllaskaga skammt frá Hofsósi. Bandaríska lúxusferðaþjónustan Eleven Experience hóf rekstur sveitahótelsins árið 2016 og starfa þar um 80 manns, þar af 20-25 Íslendingar.
Gistiherbergin eru aðeins þrettán talsins og kostar nóttin 350 þúsund krónur á ódýrasta gistiherberginu en dýrasta herbergið um 900 þúsund krónur nóttin.

Bieber birtir alls átta myndir í Instagram-færslu sinni. Þar af tvær þar sem hann nýtur sín í pottum hótelsins, þrjár af myndarlegri stofu á hótelinu, tvær náttúrulífsmyndir og svo eina þar sem hann er að tromma.
Bieber er greinilega ekki einn á ferð en hins vegar er eiginkonu hans, Hailey Bieber, og barn hvergi að sjá á myndunum. Mikið hefur verið slúðrað upp á síðkastið um að hjónaband þeirra hjóna standi höllum fæti og vímuefnaneysla popparans og spili þar stóra rullu.
Popparinn hefur á síðustu misserum hegðað sér undarlega á samfélagsmiðlum, birt undarlegar myndir og skilaboð sem hafa vakið áhyggjur aðdáenda um andlega líðan hans.

Hvort trommuslátturinn er til dægrastyttingar eða til upptöku er ekki gott að segja. Þó virðist sem það sé upptökubúnaður á nokkrum myndanna.
Síðast þegar Bieber var á landinu var hann á hátindi ferils síns og kom fram á tvennum tónleikum í troðfullum Kórnum. Hann nýtti Íslandsförina einnig til að taka upp tónlistarmyndband fyrir lagið „I'll Show You“ í Fjaðrárgljúfri í Skaftárhreppi.
Í kjölfarið varð sprenging í komu ferðamanna í gljúfrið og fjölgaði þeim um rúm áttatíu prósent milli ára.