Rúben Amorim, stjóri United, ákvað að taka leikmennina með vegna þess að United mun dvelja áfram á Spáni nóttina eftir leikinn og þeir geta þá tekið þátt í æfingu þar á föstudaginn.
Þar með er allt útlit fyrir að þeir muni spila leikinn við Brentford í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn, leik sem kemur á milli leikjanna mikilvægu við Athletic Bilbao í undanúrslitum Evrópudeildarinnar.
Obi kom til United frá Arsenal og Kone frá Guidars í Malí fyrr á þessari leiktíð og því gat United ekki sett þá á B-lista yfir leikmenn sem hægt væri að nýta í Evrópudeildinni.
Diallo og De Ligt snúa aftur
Hinn 17 ára Chido hefur komið sex sinnum inn á sem varamaður hjá United í deildinni en Kone, sem er 19 ára, á enn eftir að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið og ljóst er að það breytist ekki á morgun.
Amad Diallo og Matthijs de Ligt eru hins vegar til taks eftir að hafa verið frá keppni vegna meiðsla - Diallo síðan í febrúar og De Ligt í mánuð, vegna ökklameiðsla.
Fyrri leikur Athletic Bilbao og United hefst klukkan 19 annað kvöld og seinni leikurinn er svo á Old Trafford eftir viku. Á sama tíma mætast Tottenham og norska liðið Bodö/Glimt í hinu undanúrslitaeinvíginu.