Opinn fundur var haldinn í byrjun marsmánaðar þar sem Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra sat fyrir svörum. Kom þá fram að enginn stjórnmálaflokkur hafi uppfyllt skilyrði nýrra laga um skráningu flokka þegar fyrstu styrkirnir voru greiddir út eftir breytingu.
Góður gangur hefur verið á málinu að sögn Vilhjálms Árnasonar, formanns stjórnskipunar og eftirlitsnefndar.
„Það hefur verið góður gangur í því og við erum búin að fá fjölda gesta og fara yfir bæði ákvörðun fjármálaréðherra að krefjast ekki endurgreiðslu en líka hvernig lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka er fylgt eftir í stjórnsýslunni,“ segir Vilhjálmur.
Lögunum var breytt í janúar 2022 og var þá gerð krafa um að skráning stjórnmálaflokka í svokallaðri stjórnmálasamtakaskrá yrði skilyrði fyrir opinberum styrkjum til þeirra. Enginn flokka uppfyllti skilyrðin en Viðreisn og Samfylking breyttu skráningu í febrúar 2022, Framsókn, Sjálfstæðisflokkur og Píratar í apríl sama ár, Miðflokkur og Sósíalistaflokkur árið 2023 og Vinstri græn árið 2024. Flokkur fólksins var síðastur til að breyta skráningunni, sem var gert fyrr á þessu ári.
Fjármálaráðherra hefur sagt að ráðuneytið hefði ekki átt að greiða út styrki fyrr en flokkarnir voru búnir að uppfylla ný skilyrði. Hann hefur farið þess á leit að ríkisendurskoðun rannsaki málið.
Vilhjálmur segir að enn eigi eftir að kalla eftir einhverjum gögnum í málinu en því fari senn að ljúka.
„Undirbúningur að einhverri niðurstöðu í það mál er að öðru leyti langt kominn,“ segir Vilhjálmur.
Hvenær má búast við henni?
„Núna með vorinu einhvern tíma.“