Upp­gjörið: ÍA - KA 3-0 | Skaga­menn risu upp og Viktor fann markaskóna

Hjörvar Ólafsson skrifar
Viktor Jónsson skoraði tvö marka Skagaliðsins í leiknum. 
Viktor Jónsson skoraði tvö marka Skagaliðsins í leiknum.  Vísir/Jón Gautur

ÍA fór með 3-0 sigur af hólmi þegar liðið tók á móti KA í fimmtu umferð Bestu-deildar karla í fótbolta á Elkem-vellinum á Akranesi í dag.

Jón Gísli Eyland Gíslason kom Skagamönnum yfir strax á annarri mínútu leiksins en hann fylgdi þá eftir skoti Gísla Laxdals Unnarsson sem Steinþór Már Auðunsson varði og þrumaði boltanum upp í þaknetið.

Viktor Jónsson tvöfaldaði síðan forystu Skagaliðsins með marki sínu eftir tæplega 20 mínútna leik. Haukur Andri Haraldsson átti þá góða stungusendingu á Albert Hafsteinsson sem var óeigingjarn þegar hann renndi boltanum á Viktor sem skoraði í autt markið. Viktor var þarna að opna markareikning sinn í deildinni í sumar.

KA-menn voru meira með boltann það sem eftir lifði fyrri hálfleiks án þess þó að ná að skapa sér opin færi. Hallgrímur Mar Steingrímsson átti það besta en hann komst í góða skotstöðu eftir góðan undirbúning frá Bjarna Aðalsteinssyni en Hallgrímur Mar náði ekki að minnka muninn fyrir gestina.

Gísli Laxdal Unnarsson, sem spilaði í vinstri vængbakvarðarstöðunni í stað Jóhannesar Björns Vall í þessum leik, fékk fínt færi en Steinþór Már Auðunsson varði skot hans vel.

Gestirnir að norðan voru aðgangsharðari í upphafi seinni hálfleiks og Hallgrímur Mar og Ásgeirsson fengu báðir flott færi til þess að koma KA-liðinu inn í leikinn með marki en Árni Marínó Einarsson varði í bæði skiptin vel.

Undir lok leiksins var Bjarni Aðalsteinsson hársbreidd frá því að stýra hornspyrnu Hallgríms Mars í netið með skalla sínum. Viðar Örn Kjartansson, sem kom inná sem varamaður í leiknum, fékk svo dauðafæri í uppbótartíma leiksins en Árni Marínó varði frábærlega.

Allt kom hins vegar fyrir ekki hjá KA-liðinu og Viktor Jónsson rak síðasta naglann í líkkistu KA-mann þegar hann skoraði annað mark sitt og þriðja mark Skagaliðsins eftir sendingu frá Jóni Gísla Eyland.

Niðurstaðan 3-0 sigur Skagmanna sem hafa þar af leiðandi sex stig líkt og KR, Fram, Valur og Stjarnan í fimmta til níunda sæti deildarinnar. KA er aftur á móti ásamt Aftureldingu í 10. – 11. sæti með fjögur stig.

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍAVísir/Jón Gautur

Jón Þór: Minntum okkur á það í hverju við erum góðir

„Við notuðum æfingavikuna frá tapinu gegn KR í það að rifja það upp hverjir væru styrkleikar liðsins og þéttum raðirnar. Við höfum byrjað alla leikina í sumar af krafti án þess að ná að nýta okkur það með því að skora. Við breyttum því í dag og vorum öflugir frá fyrstu mínútu og komumst fljótlega yfir,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.

„Við spiluðum svo bara vel heilt yfir í leiknum og skoruðum þrjú góð mörk eftir flottar sóknir. Við gáfum fá færi á okkur og það var mikill dugnaður í varnarleik liðsins allt frá fremsta manni til þess aftasta. Þannig viljum við hafa það og ég er mjög sáttur við vinnuframlagið,“ sagði Jón Þór enn fremur. 

Athygli vakti að Jóhannes Björn Vall hóf leikinn á varamannabekknum og Gísli Laxdal lék í vinstri vængbakverðinum í hans stað. „Jóhannes var að glíma við meiðsli og Gísli Laxdal leysti hann bara einstaklega vel af hólmi. Spilaði vel í varnarleiknum og var ógnandi í sóknarleiknum. Við vitum vel að Gísli Laxdal getur spilað þessa stöðu með glæsibrag og hann sýndi það í kvöld,“ sagði hann um leikmann sinn. 

„Það er gott fyrir okkur að Viktor sé kominn á blað. Öll tölfræði var fín hjá Viktori í fyrstu fjórum leikjunum og hann var að koma sér í góðar stöður og færi. Það vantaði bara að reka smiðshöggið og það kom í kvöld sem er bara frábært. Sömueleiðis er gott að halda hreinu og uppskera eins og maður sáir fyrir vinnu sína í varnarleiknum,“ sagði Jón Þór. 

Hallgrímur: Erfitt að fá stig þegar þú færð þrjú mörk á þig

„Við vorum lentir undir eftir nokkrar mínútur og þetta var í raun bara brekka frá upphafi til enda. Skagamenn gátu í kjölfarið sest til baka og sótt hratt á okkur þegar þeir unnu hann. Þeir spiluðu með fimm manna vörn og í lágblokk og við fundum ekki nógu oft glufur á vörn þeirra,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA. 

„Það er mjög erfitt að ætlast til þess að fá stig þegar þú færð á þig tvö til þrjú mörk eins og við höfum verið að gera í sumar. Mér fannst við átta okkur á hvað við vorum komnir í slæma stöðu í sigurleiknum við FH og menn lögðu líkama og sál í þann leik. Það var hins vegar ekki uppi á teningnum að þessu sinni,“ sagði Hallgrímur svekktur. 

„Mér fannst vanta allt hjarta og alla baráttu. Við höfðum ekki áhuga og metnað í að hlaupa saman í pressunni og leikmenn voru hreinlega ekki að hlaupa til baka þegar þess þurfti. Við erum að fá á okkur allt of ódýr mörk og við förum ekki að spila af þeirri ákefð sem þarf fyrr en við lendum undir,“ sagði hann þar að auki. 

„Ég hlakka til þess að sjá það á æfingum í næstu viku og fram að næsta leik hvaða leikmenn eru til í að leggja sig almennilega fyrir KA. Leikmenn mínir þurfa að átta sig á því hvað það er sem upp á vantar og sýna það í verki á æfingasvæðinu að þeir hafi áhuga á að spila fyrir KA-merkið í næsta leik,“ sagði Hallgrímur um framhaldið hjá norðanmönnum. 

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA. Vísir/Anton Brink

Atvik leiksins

Viðar Örn hefði getað kveikt von í brjósti KA-manna með því að skora úr dauðafæri sem hann fékk undir lok leiksins. Þess í stað innsiglaði Viktor Jónsson sigur Skagaliðsins í næstu sókn leiksins. Segja má að Skagamenn hafi verið klínískari við að binda endahnút á sóknir sínar í þessari viðureign. 

Stjörnur og skúrkar

Árni Marínó Einarsson greip vel inn í þegar á þurfti að halda og varði nokkrum sinnum vel. Erik Tobias Sandberg var eins og klettur í hjarta varnarinna hjá Skagamönnum. Jón Gísli Eyland Gíslason skoraði eitt mark og lagði upp annað og spilaði auk þess vel í hægri bakvarðarstöðunni.

Haukur Andri Haraldsson var góður inni á miðsvæðinu hjá Skagaliðinu og Viktor Jónsson skoraði svo tvö mörk og það er afar jákvætt fyrir Skagamenn að stíflan sé brostin hjá þessum mikla markaskorara. 

Hallgrímur Mar Steingrímsson og Bjarni Aðalsteinsson reyndu hvað þeir gátu til þess að skapa usla í vörn Skagamanna. Viðar Örn Kjartansson hressti síðan upp á sóknarleik KA og kom samherjum sínum í fínar stöður með battaspili sínu.  

Dómarar leiksins

Gunnar Oddur Hafliðason og aðstoðarmenn hans Ragnar Þór Bender, Bergur Daði Ágústsson og Jóhann Ingi Jónsson höfðu góð tök á leiknum og dæmdu hann bara prýðilega. Þeir fá sjö í einkunn fyrir sín störf. 

Stemming og umgjörð

Það voru rúmlega 600 manns sem lögðu leið sína í blíðuna á Skipaskaga í dag og skemmtu sér misvel eftir því hvar þeir sátu á vellinum. Umgjörðin í kringum þennan leik var með sóma og það var skemmtileg nýbreytni að fá hamborgara með steiktum lauk.  

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira