Leipzig jafnaði á elleftu stundu og Bayern þarf enn að bíða

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bayern München var hársbreidd frá því að tryggja sér Þýskalandsmeistaratitilinn í dag.
Bayern München var hársbreidd frá því að tryggja sér Þýskalandsmeistaratitilinn í dag. getty/stuart franklin

Bayern München tókst ekki að tryggja sér þýska meistaratitilinn í dag. Yussuf Poulsen kom í veg fyrir það þegar hann skoraði jöfnunarmark RB Leipzig þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Lokatölur 3-3.

Bayern gat tryggt sér sinn 34. þýska meistaratitil með sigri á Leipzig á Red Bull Arena í dag.

Það blés ekki byrlega fyrir Bayern í hálfleik enda var liðið 2-0 undir. Benjamin Sesko og Lukas Klostermann skoruðu mörk Leipzig.

Allt annað var að sjá til Bæjara í seinni hálfleik. Eric Dier minnkaði muninn í 1-2 á 62. mínútu og aðeins mínútu síðar jafnaði Michael Olise metin í 2-2. Frakkinn hefur átt einkar gott tímabil en hann hefur skorað tíu mörk og gefið fimmtán stoðsendingar í þýsku deildinni.

Þegar sjö mínútur voru til leiksloka skoraði Leroy Sané þriðja mark Bayern og allt benti til þess að hann myndi tryggja liðinu ellefta meistaratitilinn á síðustu tólf árum.

Þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði Poulsen hins vegar metin og Bayern þarf því að bíða aðeins lengur eftir því að verða meistari.

Bayern er með 76 stig á toppi þýsku deildarinnar, níu stigum á undan Bayer Leverkusen. Á morgun mætir Leverkusen Freiburg og ef strákarnir hans Xabis Alonso vinna ekki verður Bayern meistari.

Leipzig er í 5. sæti deildarinnar með fimmtíu stig, einu stigi á eftir Freiburg sem er í 4. sætinu. Fjögur efstu sætin í deildinni gefa þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira