Enski boltinn

Benóný kom inn af bekknum og skoraði í lokaumferðinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Benóný blés nýju lífi í sóknarleikinn og skoraði sitt fjórða deildarmark í dag.
Benóný blés nýju lífi í sóknarleikinn og skoraði sitt fjórða deildarmark í dag. stockport

Benóný Breki Andrésson kom inn af varamannabekknum og skoraði jöfnunarmark Stockport í 1-3 sigri gegn Wycombe í lokaumferð League One deildarinnar á Englandi. Með sigrinum tryggði Stockport sér þriðja sæti deildarinnar, framundan er umspil um sæti í Championship deildinni. 

Stockport var í vandræðum framan af leik, lenti undir í fyrri hálfleik og fékk á sig vítaspyrnu á sextugustu mínútu, sem Corey Addai, markmaður Stockport, varði.

Tveimur mínútum síðar trítlaði Benóný Breki inn á völlinn og á sjötugustu mínútu jafnaði hann leikinn, með góðri afgreiðslu eftir fyrirgjöf á fjærstöngina frá Ryan Rydel. Þetta var fjórða mark Benónýs í ellefu deildarleikjum en hann hefur aðeins byrjað tvo leiki.

Stockport blés til sóknar eftir að hafa jafnað og komst yfir aðeins sjö mínútum síðar. Oliver Norwood skoraði markið úr vítaspyrnu. Will Collar gulltryggði svo sigurinn með þriðja markinu á 81. mínútu.

Þetta var lokaumferð deildarinnar og sigurinn tryggði Stockport þriðja sætið. Framundan er umspil upp á sæti í Championship deildinni, með Wrexham og Birmingham.

Stockport mætir Leyton Orient í undanúrslitum og fær seinni leikinn á sínum heimavelli. Sigurvegarinn fer svo í hreinan úrslitaleik á Wembley við sigurvegarann úr hinu undanúrslitaeinvíginu, Chartlon eða Wycombe.

Birmingham beint upp

Willum Þór Willumsson byrjaði á hægri kantinum hjá Birmingham í 1-2 sigri gegn Cambridge. Alfons Sampsted var utan hóps.

Birmingham hafði þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og sæti í Championship deildinni á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×