Enski boltinn

Ætla að nýta reiðina í Meistara­deildinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mikel Arteta fór ekki leynt með tilfinningar sínar eftir leik, en ætlar að nýta þær til góðra verka. 
Mikel Arteta fór ekki leynt með tilfinningar sínar eftir leik, en ætlar að nýta þær til góðra verka.  James Gill - Danehouse/Getty Images

Arsenal tapaði í fyrsta sinn á heimavelli gegn Bournemouth í gær. Tap sem Skytturnar þurfu ekki á að halda fyrir seinni undanúrslitaleikinn gegn PSG í Meistaradeildinni á miðvikudag, en ætla að nýta sér til góðs.

„Þetta skapaði ekki skriðþunga sem við getum tekið með okkur í næsta leik, alls ekki. Þetta skapaði reiði, pirring, bræði og vonbrigði. Við ætlum að nota þetta allt saman á miðvikudaginn, við verðum að gera það“ sagði þjálfarinn Mikel Arteta á blaðamannafundi eftir leik.

Arsenal komst yfir í leiknum gegn Bournemouth í gær, en missti niður forystuna og tapaði leiknum. Þetta var í fjórða sinn í síðustu fimm deildarleikjum sem liðið lendir í því, kemst yfir en vinnur ekki.

Bæði mörk Bournemouth komu upp úr föstum leikatriðum, löngu innkasti og hornspyrnu, en Arsenal hefur fengið á sig flest mörk úr föstum leikatriðum af öllum liðum í deildinni.

Arsenal á ekki möguleika á Englandsmeistaratitlinum, Meistaradeildin er eini möguleiki liðsins á að handleika málm, en PSG er 0-1 yfir í einvíginu eftir fyrri leikinn. 

Þá er sá möguleiki enn fyrir hendi að liðið missi af Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni.

„Við eigum óunnið verk fyrir höndum, við erum ekki búnir að tryggja Meistaradeildarsæti. Við erum ekki búnir að tryggja okkur annað sætið, þannig að við höfum verk að vinna“ sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×