Lífið

Milljón manns í Rio til að sjá ó­keypis Lady Gaga tón­leika

Lovísa Arnardóttir skrifar
Frá æfingu söngkonunnar fyrir tónleikana.
Frá æfingu söngkonunnar fyrir tónleikana. Vísir/EPA

Mikill fjöldi er nú kominn saman í Rio de Janeiro í Brasilíu til að fara á ókeypis tónleika með söngkonunni Lady Gaga. Samkvæmt brasilískum yfirvöldum var búist við allt að 1,6 milljón manns á Copacabana ströndina þar sem tónleikarnir fara fram.

Borgin greiðir fyrir tónleikana og er það tilraun til að lífga upp á efnahagskerfi borgarinnar. Borgaryfirvöld búast við því að tekjur vegna tónleikanna í borginni geti numið allt að 100 milljónum Bandaríkjadala sem samsvarar um 12 milljörðum íslenskra króna.

Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröð söngkonunnar til að kynna áttundu plötu hennar, Mayhem. Á plötunni er að finna lögin Abracadabra og Die With a Smile.

Hér hefur einhver klætt sig upp sem Lady Gaga og skemmtir á götum Rio í aðdraganda tónleikanna. Vísir/EPA

Í frétt BBC segir að „litlu skrímslin“ eða aðdáendur hennar hafi byrjað að bíða í röð snemma í morgun til að fá aðgang að ströndinni. Miklar öryggisráðstafanir eru við ströndina og eru til dæmis um fimm þúsund lögreglumenn á vakt. Allir sem fara á tónleikana þurfa að fara í gegnum öryggisleitarhlið. Borgaryfirvöld eru auk þess með dróna á flugi og nota andlitsgreiningu til að aðstoða lögreglu á viðburðinum.

Lady Gaga er ekki sú fyrsta til að koma fram á ókeypis tónleikum í Rio. Madonna hélt tónleika á Copacabana ströndinni í maí í fyrra. Borgaryfirvöld greiddu einnig fyrir þá tónleika en mikill fjöldi kom einnig saman þá til að hlusta á Madonnu.

Í frétt BBC er haft eftir aðdáendum að þeir hafi byrjað að bíða í röð um klukkan 7 í morgun en þyki Lady Gaga þess virði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.