Enski boltinn

María fagnaði sigri á Arsenal á sama degi og til­kynnt var um brott­för hennar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
María Þórisdóttir faðmar Sophie Baggaley markvörð eftir frábæran sigur Brighton á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag.
María Þórisdóttir faðmar Sophie Baggaley markvörð eftir frábæran sigur Brighton á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag. Getty/John Walton

Þetta var svolítið súrsætur dagur fyrir norsk-íslensku knattspyrnukonuna Maríu Þórisdóttur sem hefur vistaskipti í ár eins og faðir hennar, handboltaþjálfarinn Þórir Hergeirsson.

Brighton & Hove Albion tilkynnti nefnilega í dag að María væri á förum eftir þetta tímabil ásamt þeim Guro Bergsvand, Dejönu Stefanovic, Poppy Pattinson og Pauline Bremer.

Sama dag og þetta var opinberað þá spilaði Brighton síðasta heimaleik sinn á tímabilinu og það á móti stórliði Arsenal.

Arsenal konur tryggðu sér nýverið sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en þær áttu fá svör á móti Maríu og félögum í dag.

María var í byrjunarliðinu hjá Brighton sem vann leikinn 4-2. Hún fékk gult spjald í lok fyrri hálfleiks en kláraði leikinn.

Fran Kirby, Jelena Cankovic (2 mörk) og Kiko Seike skoruðu mörkin fyrir Brighton. Arsenal konan Caitlin Foord jafnaði metin í 1-1 en það dugði skammt. Mariona Caldentey minnkaði reyndar muninn í 4-2 undir lok leiksins.

María er 31 árs gömul og hefur spilað með Brighton frá árinu 2023. Þar á undan lék hún með Manchester United og Chelsea.

Hún hefur spilað 71 landsleik fyrir Noreg frá því að hún spilaði sinn fyrsta landsleik á móti Íslandi fyrir tíu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×