„Það hefur ekki farið fram hjá neinum að á milli okkar hefur andað köldu síðan mér var nauðbeygður kostur að reka Róbert úr forstjórastóli Actavis eftir að félagið fór á hliðina undir hans stjórn,“ skrifaði Björgólfur Thor Björgólfsson, auðugasti maður Íslands, á heimasíðu sína um samband þeirra Róberts Wessman í lok árs 2015. Um er að ræða tvo af auðugustu mönnum Íslands. Björgólfur Thor hagnaðist mikið ásamt föður sínum, Björgólfi Guðmundssyni, á gosdrykkja- og bjórframleiðslu í Rússlandi. Hann komst fyrst á lista Forbes yfir ríkustu menn heims árið 2003, og hefur verið talað um að hann hafi orðið fyrsti íslenski milljarðamæringurinn í Bandaríkjadölum talið. Hann tapaði gríðarlegum fjárhæðum í bankahruninu, en hefur tekist að byggja upp ríkidæmi sitt á ný og er enn á þessum fræga lista Forbes, einn Íslendinga. Róbert Wessman hefur náð árangri í gegnum lyfja- og lyftæknigeirann. Hann varð ungur að árum forstjóri Delta, sem sameinaðist árið 2002 öðru fyrirtæki og varð að Actavis, þar sem hann hélt áfram sem forstjóri til ársins 2008. Ári síðar stofnaði hann lyfjafyrirtækið Alvogen og árið 2013 Alvotech sem hafa vaxið dátt. Lengi hefur verið fjallað um erjur Björgólfs Thors og Róberts, en samband þeirra má rekja til þess tíma þegar Róbert var forstjóri Alvogen en Björgólfur aðaleigandi. Á dögunum, þegar greint var frá njósnaaðgerðum sem Björgólfur stóð fyrir, og beindust meðal annars að Róberti, urðu deilur þeirra aftur á allra vörum. Njósnamálið hefur þótt sýna fram á hversu djúpur ágreiningur þeirra hefur verið. Þeir tveir hafa þó ekki alltaf verið erkifjendur en hafa nú um margra ára skeið eldað grátt silfur. „Ég bara kunni ekki við að vinna með honum eða hans fólki“ „Félagarnir hafa unnið náið saman að uppbyggingu Actavis sem nú er orðinn alþjóðlegur lyfjarisi,“ sagði í umfjöllun DV um Róbert Wessman árið 2005, en hann var þá launahæsti forstjóri landsins, hjá Actavis. Hann og Björgólfur sáu það samstarf þó hvor með sínum augum. Félagið Pharmaco, þar sem Björgólfur var stór hluthafi, yfirtók Delta árið 2002 þar sem Róbert var forstjóri. Sameinaða félagið fékk nafnið Actavis. Í júní árið 2016 opnaði Róbert sig um þessa yfirtöku og sagði aðferðarfræði Björgólfs ekki hafa verið með þeim hætti sem honum hugnaðist. „Samstarf okkar byrjaði ekki á réttum forsendum. Hann tekur yfir Deltuna á hátt sem var ekki eins og ég hefði gert það,“ sagði Róbert við Markaðinn. „Ég var auðvitað forstjóri í því félagi, var ungur maður, og hafði enga fjármuni til þess að verjast þessari yfirtöku. Hann fékk Búnaðarbankann með sér í lið sem var viðskiptabanki Deltunnar og átti að hafa frumkvæði að því að verja sérstaklega yfirtöku Björgólfs. Þeir fengu sennilega glýju í augun yfir aurunum sem hann allavega sagðist eiga, og báðu mig um að skoða fyrirtæki fyrir sig í Eystrasaltslöndunum sem ég hafði ekki tíma í en gerði þeim greiða að fara í tvo daga og skoða. Á meðan plottuðu þeir yfirtökuna með Björgólfi.“ Að sögn Róberts þurfti hann í kjölfarið að taka ákvörðun um að starfa áfram í félaginu þar sem Björgólfur var hlutafi. Róbert Wessman og Björgólfur Thor Björgólfsson meðan allt lék í lyndi, á yfirborðinu minnsta kosti. „Mér hugnaðist það mjög illa, bara miðað við hvernig að öllu þessu var staðið,“ sagði hann en starfaði þó áfram. Árið 2007 tóku félög undir forystu Björgólfs yfir allt hlutaféð. „Þá er í rauninni bara einn hluthafi. Þá var návígið orðið allt annað. Ég bara kunni ekki við að vinna með honum eða hans fólki,“ sagði Róbert. Jafnframt sagði hann Björgólf hafa verið mótfallinn fjárfestingu sinni í Glitni árið 2007, en að sögn Róberts hafði Björgólfur alltaf haft augastað á að taka yfir bankann. „Það var kannski hans vendipunktur í okkar samstarfi. Minn vendipunktur var frá fyrsta degi og á þeim degi að þurfa ekki að vinna með honum yfir höfuð.“ Að neðan má sjá nærmynd af Róberti Wessman í Íslandi í dag frá ársbyrjun 2009. Róbert í speglasal Björgólfur svaraði þessum ásökunum Róberts í aðsendri grein í Fréttablaðinu, sem bar titilinn Fastur í speglasal. „Róbert Wessman gaf lesendum Markaðarins innsýn í hugarheim sinn í gær. Að horfa á þá mynd var eins og að svipast um í speglasal, allt bjagað og snúið,“ skrifaði Björgólfur. Hann gaf lítið fyrir frásögn Róberts af yfirtöku Delta. Róbert hefði verið starfsmaður fyrirtækisins og ekki haft neitt um það að segja hvað eigendurnir myndu gera við fyrirtækið. „Hann býsnast yfir yfirtöku Pharmaco á Delta árið 2002 og segir að hann hafi ekki haft fjármuni til að verjast yfirtökunni. Staðreyndin er sú að hann var starfsmaður félagsins og hafði auðvitað ekkert um það að segja hvort eigendur þess seldu hlut sinn eða ekki. Hann kennir viðskiptabanka félagsins um að hafa sent sig úr landi og „á meðan plottuðu þeir yfirtökuna“. Á mannamáli heitir þetta að nokkrir hluthafa hafi fallist á að selja – og þurftu auðvitað ekki að spyrja starfsmann sinn leyfis,“ sagði Björgólfur. Hann benti á að Róbert hefði starfað hjá fyrirtækinu í sex ár til viðbótar og sagði að á þeim tíma hefði hann tekið fullan þátt í starfi þess. „Róbert starfaði áfram sem forstjóri næstu sex árin og lætur eins og það hafi hann gert tilneyddur!“ Jafnframt ræddi Björgólfur starfslok Róberts hjá Actavis, en mikið hefur verið deilt um þau. Nánar verður fjallað um þau síðar í þessari grein. Björgólfur sagði þá að það væru dylgjur að hann hefði fyllst afbrýðisemi þegar Róbert keypti hlut í Glitni. „Það sem mér féll illa voru sífellt vaxandi umsvif forstjóra Actavis á öðrum og óskyldum vettvangi sem samræmdust ekki forstjóraskyldum hans. Róbert rak 10 manna fjárfestingarfélag sitt, Salt Investments, á sama tíma og hann átti að einbeita sér að fullu að rekstri stórfyrirtækis.“ Að neðan má sjá nærmynd af Björgólfi Thor frá því í mars 2009. Var Róbert rekinn eða ekki? Í byrjun ágúst 2008, skömmu fyrir hrun, var greint frá því að Róbert væri hættur hjá Actavis. „Þessi ákvörðun mín kemur kannski eins og köld vatnsgusa framan í starfsfólkið en þetta er ekki ákvörðun sem var tekin í flýti. Ég lofaði sjálfum mér því fyrir tveimur til þremur árum að hætta eftir þann tíma og nú er ég hættur,“ sagði Róbert við Vísi að því tilefni. Tveimur árum síðar birti Björgólfur grein á heimasíðu sinni um rekstur Actavis. Þar sagði hann að veturinn 2007 til 2008 hefði komið í ljós að rekstraráætlanir stjórnenda stæðust engan veginn. Einnig hefði komið upp víðtækt gæðavandamál í verksmiðju félagsins í Bandaríkjunum. Það hefði haft í för með sér gífurlegt tekjutap og orðspor félagsins orðið fyrir höggi á mikilvægasta markaðssvæði þess. Við úrlausn þessara vandamála hefði verið ákveðið að víkja Róberti úr starfi. Í kjölfarið sendi Róbert fjölmiðlum starfslokasamninginn. Hann þvertók fyrir það að hafa verið rekinn. „Við gerðum formlegan samning um starfslokin og þar kemur hvergi fram að mér hafi verið vikið úr starfi heldur þvert á móti er tekið fram að samkomulag hafi náðst. Tekið er fram að uppsagnarfrestur verði greiddur sem var sex mánuðir og að ég styðji yfirfærslu verkefna til nýs forstjóra og verði aðgengilegur eftir þörfum. Ljóst má vera að hefði verið um brottrekstur að ræða hefðu bæði samningur og greiðslur til mín verið á annan veg. Ég vildi einfaldlega snúa mér að mínum eigin fjárfestingum og leiðir okkar skildu. Mér finnst áríðandi að rétt sé farið með þetta mál,“ sagði Róbert. Jafnframt sagði Róbert að Björgólfur væri í varnarbaráttu við að verja skaddað mannorð sitt eftir hrun. Nú væri fjöldi manns að vinna hörðum höndum að því að „þeyta ryki í augu almennings“. „Ég ætla mér ekki munnhöggvast við Björgólf í fjölmiðlum en hvet hann eindregið til að verja sín umsvif í íslensku viðskiptalífi með staðreyndum en ekki endurteknum rangfærslum,“ sagði hann. Björgólfur svaraði með annarri færslu á heimasíðu sinni. „Hið sanna er að áhugi minn og stjórnar Actavis á áframhaldandi samstarfi við þáverandi forstjóra var enginn. Milli mín og forstjórans hafði orðið algjör trúnaðarbrestur,“ sagði hann og minntist aftur á fjárfestingar Róberts sem Björgólfi þótti of umfangsmiklar og í samkeppni við Actavis. Sagði Björgólf hafa fengið sinn hlut gefins Í áðurnefndu viðtali við Markaðinn sagði Róbert að eftir að hann lauk störfum hjá Actavis hafi Deutsche Bank boðið honum „gull og græna skóga“ fyrir að sitja áfram í stjórn fyrirtækisins en hann hafnað því. Þá sagðist hann hafa fengið þau skilaboð frá Glitni, sem hafi verið með Björgólf á bak við sig, að það yrði tryggt að allar eignir hans í Actavis yrðu teknar af honum. „Þau stóðu bara fyllilega við það. Þannig að Björgólfur fékk gefins hlut sem ég átti í félaginu sem í dag eru umtalsverð verðmæti og hlaupa á hundruðum milljóna dollara,“ sagði Róbert. Í svaragrein Björgólfs lýsti hann þessu með öðrum hætti: „Óbjöguð er sagan svona: Róbert skuldaði Glitni milljarða á milljarða ofan. Þær skuldir voru að mestu afskrifaðar, en bankinn leysti auðvitað til sín þær eignir sem voru veðsettar honum, þar á meðal eignarhlut Róberts í Actavis. Hlut sem hann hafði fengið að mestu gefins og varð verðlaus undir hans stjórn. Að halda því fram að ég hafi fengið þann hlut gefins sýnir undarlegt innsæi stórforstjórans á því hvernig viðskipti ganga fyrir sig.“ Róbert sagði í kjölfarið við Vísi að hann ætlaði ekki að eltast við rangfærslur Björgólfs. „En mig langar að bjóða honum og félögum hans í Color Run á morgun en við eigum nokkra miða eftir óselda. Það hafa allir gott af góðri hreyfingu og skemmtilegum félagsskap,“ sagði Róbert, en litahlaupið fór fram undir merkjum Alvogen. Endalaus málaferli Frá og með árinu 2010 hófust stanslausar málshöfðanir og málaferli á milli Björgólfs og Róberts og félaga þeirra. Í október það ár greindi Stöð 2 frá því að Róbert hefði höfðað mál gegn tveimur dótturfélögum Novators, félagi Björgólfs, þar sem hann krafðist 4,6 milljarða króna. Róbert sagði árangurstengda þóknun frá því að hann var forstjóri Actavis vera vangreidda. Nokkrum mánuðum síðar var greint frá því í Fréttatímanum að félag Björgólfs, BeeTeeBee ltd. hefði stefnt Róberti til þess að greiða 1,2 milljarða króna skuld vegna láns sem félag Róberts, Burlington Worldwide Limited, hefði tekið árið 2005. Lánstíminn hefði verið tvö ár en framlengdur 2007 til ársins 2009. Félög Björgólfs voru dæmd til að greiða Róberti 20 milljónir evra, en Róbert var gert að greiða öðru félagi Björgólfs 7,7 milljónir evra. Í kjölfarið var greint frá því að félög Björgólfs væru eignalaus og því fengi Róbert ekkert upp í kröfur sínar. Hins vegar var skuld Róberts við Björgólf í persónulegri ábyrgð hans. Fyrrverandi félagarnir tveir enduðu á því að gera dómsátt árið 2012 um að ljúka málaferlunum. Greint var frá því í Vísi að Róbert Wessman hefði skrifað undir skuldabréf upp á 5 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 800 milljóna króna, sem hann þyrfti að greiða Björgólfi Thor og Actavis. Síðar sagði Róbert að sú dómsátt hefði verið Björgólfi mjög hagstæð. Þau orð Róberts var að finna í tilkynningu sem hann sendi á fjölmiðla árið 2014 í tilefni annarrar málshöfðunar Björgólfs á hendur Róberti. Þá stefndi Björgólfur einnig Árna Harðarsyni, einum nánasta samstarfsmanni Róberts. Sú stefna varðaði viðskipti þeirra árið 2007 og krafðist Björgólfur tveggja milljóna evra eða rúmlega 300 milljóna króna, í skaðabætur vegna viðskiptanna. Þetta svar Róberts vakti sérstaka athygli fyrir þær sakir að hann skoraði á Björgólf að taka þátt í hinni marumtöluðu ísfötuáskörun, sem var griðarlega vinsæl um heim allan á þeim tíma. Hér má sjá dæmi um ísfötuáskörun. „Ég vil nota tækifærið og skora á Björgólf Thor að fara í ísfötubað, enda virðist hann þurfa smá kælingu. Þannig má líka komast hjá því að eyða tíma og fjármunum dómstóla í að fjalla um svona tilhæfulaus mál.“ Róbert og Árni voru sýknaðir bæði í héraðsdómi og Hæstarétti. Málið á bak við njósnirnar Síðan var það mál fyrrverandi hlutahafa Landsbankans gegn Björgólfi sem hafði verið stærsti eigandi bankans fyrir hrun. Björgólfur var sakaður um að leyna hluthöfum bankans mikilvægum upplýsingum. Það var vegna þess máls sem áðurnefndar njósnaaðgerðir fóru fram haustið 2012, en þær beindust meðal annars að Róberti. Greint var frá því í Kveik í síðustu viku að Björgólfur hafi talið hópmálsóknarfélag hluthafa bankans vera á snærum Róberts, og að hann hafi viljað sanna það. Jafnframt hafi hann viljað komast að því hvernig félagið hefði fengið gögnin sem stefna þess byggði á. Í færslu sem birtist á heimasíðu Björgólfs árið 2015 benti hann á að í umfjöllun Kjarnans hefði komið fram að tveir þriðju af hlutum málsóknarfélagsins væru í eigu Urriðahæðar. Það félag hefði ekki átt neitt í Landsbankanum þegar hann féll heldur sankað að sér afskrifuðum hlutabréfum lífeyrissjóða eftir hrun. „Í daglegu tali kallast félög sem þessi hrægammasjóðir. Samkvæmt frétt Kjarnans er eigandi þessa hrægammasjóðs Árni Harðarson, starfsmaður Róberts Wessman. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að á milli okkar hefur andað köldu síðan mér var nauðbeygður kostur að reka Róbert úr forstjórastóli Actavis eftir að félagið fór á hliðina undir hans stjórn. Þeir telja sig eiga harma að hefna og hafa leitað að átyllu til að fara í mál við mig. Átylluna fundu þeir að endingu í hugarburði um að ég beri ábyrgð á reikningsskilum Landsbanka Íslands,“ skrifaði Björgólfur. Hann sagði „fingraför þessara kumpána“ hafa verið á málinu frá upphafi og að þeir hefðu platað aðra hluthafa til að taka þátt í málsókninni með sér. „Hinir ljósfælnu gammar og leppar þeirra kæra sig kollótta þótt almennir hluthafar séu blekktir og trúverðugleika lífeyrissjóðanna stefnt í voða. Lægra verður varla lagst,“ sagði Björgólfur. Í fyrra lauk því máli með um milljarðs króna sáttagreiðslum Björgólfs til hluthafanna, en þar féllst Róbert á að fá ekki krónu. Björgólfur viðurkenndi þó enga sök með sáttagreiðslunni. Reyndist á bak við kaupin sem komu Róberti í opna skjöldu Björgólfur og Róbert hafa báðir tengst rekstri fjölmiðla. Átök þeirra tveggja í tengslum við þá birtust hvað helst í september árið 2017 þegar Sigurður G. Guðjónsson lögmaður keypti helstu eignir Pressunnar, sem átti fjöldann allan af fjölmiðlum, meðal annars DV og aðra tengda miðla. Þá hafði Pressan verið í 68 prósenta eigu félagsins Dalsins, sem var í jafnri eigu nokkurra fjárfesta, þar á meðal Róberts. Eftir söluna sat Dalurinn eftir með útgáfufélagið Birtíng og héraðsfréttamiðla. Eftir að greint var frá kaupum Sigurðar sögðu Dalsmennn að þeir hefðu ekki vitað af kaupunum fyrr en þau hefðu verið frágengin. Jafnframt sögðust þeir forvitnir að fá að vita hvaða fjárfestar stæðu að baki Sigurði. Í kjölfarið hófust miklar erjur milli Dalsmanna og Björns Inga Hrafnssonar sem hafði verið stjórnarformaður Pressunnar. Og í desember sama ár fór Pressan í þrot. DV var rekið áfram undir félaginu Frjálsri Fjölmiðlun, sem var í eigu Sigurðar. Það var síðan árið 2020 sem það kom í ljós að Novator, félag Björgólfs, hefði fjármagnað kaup Sigurðar. Það hefði hann gert með því að lána Sigurði að minnsta kosti 745 milljónir. Áður hafði Ragnhildur Sverrisdóttir, þáverandi talskona Björgólfs, haldið því fram í fjölmiðlum að Björgólfur hefði ekki komið nálægt kaupunum. Í umfjöllun Kjarnans um málið segir að sá orðrómur að Björgólfur hafi staðið að baki Sigurði hefði lengi verið til staðar. „Sá orðrómur byggði meðal annars á því að með kaupunum á miðlunum, í september 2017, hafi hann náð að gera gömlum fjandmönnum sínum, Róberti Wessman og Árna Harðarsyni, skráveifu,“ sagði í Kjarnanum. Hægri hönd Róberts á fund með Björgólfi Halldór Kristmansson, þáverandi samskiptastjóri Alvogen og náinn samstarfsmaður Róberts til margra ára, bar Róbert þungum sökum í mars 2021. Hann hvatti stjórnir fyrirtækjanna til að víkja Róberti úr starfi forstjóra vegna stjórnarhátta hans. „Ég tel að morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir, er varða meinta óvildarmenn og ærumeiðingar í þeirra garð, sé í raun óverjandi hegðun forstjóra alþjóðlegra fyrirtækja. Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um hæfi hans sem stjórnanda,“ sagði Halldór í tilkynningu til fjölmiðla, þar sem hann sagðist hafa gögn sem sýndu að hann hefði verið beittur óeðlilegum þrýstingi til að koma höggi á óvildarmenn Róberts. Einnig sagði Halldór að Róbert hefði ráðist á hann í vitna viðurvist og orðið vitni að sambærilegum viðburði. Í kjölfarið sendi Alvogen frá sér yfirlýsingu þar sem að sagði að engin gögn bentu til þess að neitt væri athugavert við stjórnunarhætti Róberts. Því væri engin ástæða er til þess að aðhafast neitt. Þá sagði Róbert að sér þætti leiðinlegt að langt samstarf þeirra Halldórs lyki með þessum hætti. Ljóst væri af bréfasendingum lögmanna Halldórs að ásakanir hans væru settar fram í fjárhagslegum tilgangi, en hann hefði krafist greiðslna. „Fyrir mig eru þessar ásakanir mjög mikil vonbrigði enda vegið að mínum starfsheiðri og persónu. Mér þykir mjög miður að samstarfi okkar Halldórs til 18 ára hafi lokið með þessum hætti,“ sagði Róbert. Sjá nánar: Róbert segir miður að átján ára samstarfi við Halldór ljúki svona Málið vakti mikla athygli, ekki síst þegar Stundin birti SMS-skeyti Róberts til samstarfsmanna sína. Það var þegar þeir báru vitni í áðurnefndu skaðabótamáli Björgólfs Thors á hendur honum árið 2014. „Ég mun ganga frá ykkur lygara skíthællinn þinn“ og „Bottomlænið er að þú ert dauður ég lofa.“ voru á meðal þeirra skilaboða sem Stundin birti. Að sögn Láru Ómarsdóttur, þáverandi upplýsingafulltrúa Róberts, baðst hann afsökunar á framkomu sinni í beinu framhaldi. „Hann var í flugvél þegar hann sendi þessi skilaboð út af þessu dómsmáli, dómsmáli sem Róbert vann svo. Þessir menn höfðu borið vitni í málinu og Róbert reiddist yfir því og sendi skilaboðin – sem eru ósæmileg í alla staði – en hann hafði strax samband símleiðis og baðst strax afsökunar, og baðst svo aftur afsökunar bréfleiðis með formlegu afsökunarbréfi,“ sagði Lára við Vísi. Nokkrum dögum seinna var greindi Markaðurinn í Fréttablaðinu frá fundi Halldórs og Björgólfs sem átti sér stað í nóvember árið áður. Alvogen stefndi honum vegna fundarins og taldi að með honum hefði Halldór gerst sekur um alvarlegt trúnaðarbrot. Fundurinn væri með öllu óeðlilegur og upplýsingar um hann hefðu komið fyrirtækinu í opna skjöldu. Halldór sagði í tilkynningu til fjölmiðla að á þessum fundi hefði hann spurt Björgólf út í ósæmilega hegðun Róberts, þegar hann var forstjóri Actavis. Halldór hefði fengið það á hreint að Róbert hefði undir áhrifum áfengis hringt í aðstoðarforstjóra Actavis og gert tilraun til að segja honum upp störfum. Síðan hefði Björgólfur umsvifalaust sagt Róberti upp störfum. „Ég taldi þessar upplýsingar mikilvægar fyrir rannsókn málsins og sýni að ósæmileg hegðun Róberts nái yfir að minnsta kosti 12 ára tímabil. Björgólfur Thor virðist því vera eini maðurinn sem hafi sýnt kjark til að stöðva ósæmilega hegðun Róberts,“ sagði Halldór. Vildi að Halldór myndi leggja fram gögn Þessi gögn Halldórs áttu aftur eftir að koma til umræðu í áðurnefndu máli hluthafa Landsbankans gegn Björgólfi. Þá voru tvö mál til skoðunar fyrir dómi sem vörðuðu 600 milljóna króna skaðabótakröfu Vogunar hf. og fiskveiðihlutafélagsins Venusar hf. á hendur Björgólfi vegna falls Landsbankans. Björgólfur krafðist þess að Halldór myndi afhenda greinargerð og tugi tölvupósta og önnur dómsskjöl sem lágu fyrir í máli Alvogen gegn Halldóri. Hann taldi þau sýna hvernig Róbert hefði haft stjórn á málsókninni. Einnig vildi hann að Halldór yrði kvaddur fyrir dóminn. Máli sínu til stuðnings vísaði Björgólfur til tilkynningar sem Halldór sendi fjölmiðlum þar sem hann sagði að Róbert og lykilstjórnendur Alvogen og Alvotech, í nafni hluthafa Landsbankans, hefðu haft fulla stjórn á hópmálsókninni gegn Björgólfi. Í þessari tilkynningu Halldórs sem fjallaði um það hvernig hann vildi meina að Róbert hefði reynt að klekkja á meintum óvildarmönnum sínum hélt hann því einnig fram að það hefði reynst ákveðnum mönnum dýrkeypt að þiggja boð í afmælisveislu Björgólfs. Halldór lagðist gegn því að verða við beiðninni. Hann sagðist ekki gera sér grein fyrir því hvaða þýðingu gögnin myndu hafa fyrir málið. Í úrskurði héraðsdóms sagði að Halldór segðist „fullviss um að ef hann afhendi sóknaraðila gögnin, þá verði reynt að nota það gegn honum“ bæði í máli Alvogen gegn honum og almennt. Einnig væri honum mikið í mun að brjóta ekki hugsanlegar trúnaðarskyldur sínar gagnvart fyrrum vinnuveitanda. Málinu var vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur. Landsréttur sendi það aftur í hérað. Þá var kröfum Björgólfs að mestu hafnað, nema einni um að Halldór ætti að afhenda ákveðið gagn málsins. Úrskurðurinn var kærður til Landsréttar sem hafnaði kröfum Björgólfs alfarið. Líkt og áður segir lauk máli hluthafanna gegn Björgólfi með dómsátt í fyrra. Og í lok árs 2022 féll Alvogen frá málsókn sinni á hendur Halldóri. Er bardaginn búinn eða í fullum gangi? Átök þeirra Björgólfs Thors og Róberts Wessman hafa staðið yfir í um tveggja áratuga skeið. Erjurnar hafa bæði verið uppi á yfirborðinu, líkt og hefur sést í opinberum skrifum og dómsmálum sem þeir hafa höfðað gegn hvorum öðrum, en líka undir niðri, eins og kom í ljós með uppljóstrun njósnamálsins. Átökin teygja sig meðal annars niður í Vatnsmýri þar sem má finna tvær stórar byggingar og flaggskip þeirra hér á landi í fyrirtækjarekstri; annars vegar Grósku sem er að hluta í eigu Björgólfs í gegnum fasteignafélagið Heima og svo höfuðstöðvar Alvotech þar sem Róbert er forstjóri. Samanburður á því hvor byggingin er fallegri eða hvor forstjórinn er með fallegra útsýni af skrifstofu sinni verður látinn eiga sig í þessari samantekt. Hvorki Björgólfur Thor né Róbert hafa viljað tjá sig opinberlega um njósnir þess fyrrnefnda á þeim síðarnefnda og fyrrverandi hluthöfum Landsbankans sem hulunni var svipt af á dögunum. Á meðan ekkert heyrist eða fréttist er ómögulegt að átta sig á því hvort þeir deili sem aldrei fyrr, fyrir luktum tjöldum, eða íhugi að grafa stríðsöxina. Hrunið Gögnum stolið frá sérstökum saksóknara Deilur Halldórs Kristmannssonar og Róberts Wessman Lyf Alvotech Dómsmál Fjölmiðlar Fréttaskýringar Mest lesið Átök auðkýfinganna: „Ekki farið fram hjá neinum að á milli okkar hefur andað köldu“ Viðskipti innlent „Já veistu Gummi, þetta gæti verið eitthvað“ Atvinnulíf Margföld umframáskrift en útboðið ekki stækkað í bili Viðskipti innlent Landsbankinn við Austurstræti falur Viðskipti innlent Hefja flug til Edinborgar og Malaga Viðskipti innlent Bjarni nýr framkvæmdastjóri RVK Bruggfélags Viðskipti innlent Árni hættir sem forstjóri Húsasmiðjunnar Viðskipti innlent Jón Ólafur nýr formaður SA Viðskipti innlent Spá sömuleiðis óbreyttum stýrivöxtum Viðskipti innlent Málaferli vegna innkaupa ÁTVR halda enn áfram Viðskipti innlent
Um er að ræða tvo af auðugustu mönnum Íslands. Björgólfur Thor hagnaðist mikið ásamt föður sínum, Björgólfi Guðmundssyni, á gosdrykkja- og bjórframleiðslu í Rússlandi. Hann komst fyrst á lista Forbes yfir ríkustu menn heims árið 2003, og hefur verið talað um að hann hafi orðið fyrsti íslenski milljarðamæringurinn í Bandaríkjadölum talið. Hann tapaði gríðarlegum fjárhæðum í bankahruninu, en hefur tekist að byggja upp ríkidæmi sitt á ný og er enn á þessum fræga lista Forbes, einn Íslendinga. Róbert Wessman hefur náð árangri í gegnum lyfja- og lyftæknigeirann. Hann varð ungur að árum forstjóri Delta, sem sameinaðist árið 2002 öðru fyrirtæki og varð að Actavis, þar sem hann hélt áfram sem forstjóri til ársins 2008. Ári síðar stofnaði hann lyfjafyrirtækið Alvogen og árið 2013 Alvotech sem hafa vaxið dátt. Lengi hefur verið fjallað um erjur Björgólfs Thors og Róberts, en samband þeirra má rekja til þess tíma þegar Róbert var forstjóri Alvogen en Björgólfur aðaleigandi. Á dögunum, þegar greint var frá njósnaaðgerðum sem Björgólfur stóð fyrir, og beindust meðal annars að Róberti, urðu deilur þeirra aftur á allra vörum. Njósnamálið hefur þótt sýna fram á hversu djúpur ágreiningur þeirra hefur verið. Þeir tveir hafa þó ekki alltaf verið erkifjendur en hafa nú um margra ára skeið eldað grátt silfur. „Ég bara kunni ekki við að vinna með honum eða hans fólki“ „Félagarnir hafa unnið náið saman að uppbyggingu Actavis sem nú er orðinn alþjóðlegur lyfjarisi,“ sagði í umfjöllun DV um Róbert Wessman árið 2005, en hann var þá launahæsti forstjóri landsins, hjá Actavis. Hann og Björgólfur sáu það samstarf þó hvor með sínum augum. Félagið Pharmaco, þar sem Björgólfur var stór hluthafi, yfirtók Delta árið 2002 þar sem Róbert var forstjóri. Sameinaða félagið fékk nafnið Actavis. Í júní árið 2016 opnaði Róbert sig um þessa yfirtöku og sagði aðferðarfræði Björgólfs ekki hafa verið með þeim hætti sem honum hugnaðist. „Samstarf okkar byrjaði ekki á réttum forsendum. Hann tekur yfir Deltuna á hátt sem var ekki eins og ég hefði gert það,“ sagði Róbert við Markaðinn. „Ég var auðvitað forstjóri í því félagi, var ungur maður, og hafði enga fjármuni til þess að verjast þessari yfirtöku. Hann fékk Búnaðarbankann með sér í lið sem var viðskiptabanki Deltunnar og átti að hafa frumkvæði að því að verja sérstaklega yfirtöku Björgólfs. Þeir fengu sennilega glýju í augun yfir aurunum sem hann allavega sagðist eiga, og báðu mig um að skoða fyrirtæki fyrir sig í Eystrasaltslöndunum sem ég hafði ekki tíma í en gerði þeim greiða að fara í tvo daga og skoða. Á meðan plottuðu þeir yfirtökuna með Björgólfi.“ Að sögn Róberts þurfti hann í kjölfarið að taka ákvörðun um að starfa áfram í félaginu þar sem Björgólfur var hlutafi. Róbert Wessman og Björgólfur Thor Björgólfsson meðan allt lék í lyndi, á yfirborðinu minnsta kosti. „Mér hugnaðist það mjög illa, bara miðað við hvernig að öllu þessu var staðið,“ sagði hann en starfaði þó áfram. Árið 2007 tóku félög undir forystu Björgólfs yfir allt hlutaféð. „Þá er í rauninni bara einn hluthafi. Þá var návígið orðið allt annað. Ég bara kunni ekki við að vinna með honum eða hans fólki,“ sagði Róbert. Jafnframt sagði hann Björgólf hafa verið mótfallinn fjárfestingu sinni í Glitni árið 2007, en að sögn Róberts hafði Björgólfur alltaf haft augastað á að taka yfir bankann. „Það var kannski hans vendipunktur í okkar samstarfi. Minn vendipunktur var frá fyrsta degi og á þeim degi að þurfa ekki að vinna með honum yfir höfuð.“ Að neðan má sjá nærmynd af Róberti Wessman í Íslandi í dag frá ársbyrjun 2009. Róbert í speglasal Björgólfur svaraði þessum ásökunum Róberts í aðsendri grein í Fréttablaðinu, sem bar titilinn Fastur í speglasal. „Róbert Wessman gaf lesendum Markaðarins innsýn í hugarheim sinn í gær. Að horfa á þá mynd var eins og að svipast um í speglasal, allt bjagað og snúið,“ skrifaði Björgólfur. Hann gaf lítið fyrir frásögn Róberts af yfirtöku Delta. Róbert hefði verið starfsmaður fyrirtækisins og ekki haft neitt um það að segja hvað eigendurnir myndu gera við fyrirtækið. „Hann býsnast yfir yfirtöku Pharmaco á Delta árið 2002 og segir að hann hafi ekki haft fjármuni til að verjast yfirtökunni. Staðreyndin er sú að hann var starfsmaður félagsins og hafði auðvitað ekkert um það að segja hvort eigendur þess seldu hlut sinn eða ekki. Hann kennir viðskiptabanka félagsins um að hafa sent sig úr landi og „á meðan plottuðu þeir yfirtökuna“. Á mannamáli heitir þetta að nokkrir hluthafa hafi fallist á að selja – og þurftu auðvitað ekki að spyrja starfsmann sinn leyfis,“ sagði Björgólfur. Hann benti á að Róbert hefði starfað hjá fyrirtækinu í sex ár til viðbótar og sagði að á þeim tíma hefði hann tekið fullan þátt í starfi þess. „Róbert starfaði áfram sem forstjóri næstu sex árin og lætur eins og það hafi hann gert tilneyddur!“ Jafnframt ræddi Björgólfur starfslok Róberts hjá Actavis, en mikið hefur verið deilt um þau. Nánar verður fjallað um þau síðar í þessari grein. Björgólfur sagði þá að það væru dylgjur að hann hefði fyllst afbrýðisemi þegar Róbert keypti hlut í Glitni. „Það sem mér féll illa voru sífellt vaxandi umsvif forstjóra Actavis á öðrum og óskyldum vettvangi sem samræmdust ekki forstjóraskyldum hans. Róbert rak 10 manna fjárfestingarfélag sitt, Salt Investments, á sama tíma og hann átti að einbeita sér að fullu að rekstri stórfyrirtækis.“ Að neðan má sjá nærmynd af Björgólfi Thor frá því í mars 2009. Var Róbert rekinn eða ekki? Í byrjun ágúst 2008, skömmu fyrir hrun, var greint frá því að Róbert væri hættur hjá Actavis. „Þessi ákvörðun mín kemur kannski eins og köld vatnsgusa framan í starfsfólkið en þetta er ekki ákvörðun sem var tekin í flýti. Ég lofaði sjálfum mér því fyrir tveimur til þremur árum að hætta eftir þann tíma og nú er ég hættur,“ sagði Róbert við Vísi að því tilefni. Tveimur árum síðar birti Björgólfur grein á heimasíðu sinni um rekstur Actavis. Þar sagði hann að veturinn 2007 til 2008 hefði komið í ljós að rekstraráætlanir stjórnenda stæðust engan veginn. Einnig hefði komið upp víðtækt gæðavandamál í verksmiðju félagsins í Bandaríkjunum. Það hefði haft í för með sér gífurlegt tekjutap og orðspor félagsins orðið fyrir höggi á mikilvægasta markaðssvæði þess. Við úrlausn þessara vandamála hefði verið ákveðið að víkja Róberti úr starfi. Í kjölfarið sendi Róbert fjölmiðlum starfslokasamninginn. Hann þvertók fyrir það að hafa verið rekinn. „Við gerðum formlegan samning um starfslokin og þar kemur hvergi fram að mér hafi verið vikið úr starfi heldur þvert á móti er tekið fram að samkomulag hafi náðst. Tekið er fram að uppsagnarfrestur verði greiddur sem var sex mánuðir og að ég styðji yfirfærslu verkefna til nýs forstjóra og verði aðgengilegur eftir þörfum. Ljóst má vera að hefði verið um brottrekstur að ræða hefðu bæði samningur og greiðslur til mín verið á annan veg. Ég vildi einfaldlega snúa mér að mínum eigin fjárfestingum og leiðir okkar skildu. Mér finnst áríðandi að rétt sé farið með þetta mál,“ sagði Róbert. Jafnframt sagði Róbert að Björgólfur væri í varnarbaráttu við að verja skaddað mannorð sitt eftir hrun. Nú væri fjöldi manns að vinna hörðum höndum að því að „þeyta ryki í augu almennings“. „Ég ætla mér ekki munnhöggvast við Björgólf í fjölmiðlum en hvet hann eindregið til að verja sín umsvif í íslensku viðskiptalífi með staðreyndum en ekki endurteknum rangfærslum,“ sagði hann. Björgólfur svaraði með annarri færslu á heimasíðu sinni. „Hið sanna er að áhugi minn og stjórnar Actavis á áframhaldandi samstarfi við þáverandi forstjóra var enginn. Milli mín og forstjórans hafði orðið algjör trúnaðarbrestur,“ sagði hann og minntist aftur á fjárfestingar Róberts sem Björgólfi þótti of umfangsmiklar og í samkeppni við Actavis. Sagði Björgólf hafa fengið sinn hlut gefins Í áðurnefndu viðtali við Markaðinn sagði Róbert að eftir að hann lauk störfum hjá Actavis hafi Deutsche Bank boðið honum „gull og græna skóga“ fyrir að sitja áfram í stjórn fyrirtækisins en hann hafnað því. Þá sagðist hann hafa fengið þau skilaboð frá Glitni, sem hafi verið með Björgólf á bak við sig, að það yrði tryggt að allar eignir hans í Actavis yrðu teknar af honum. „Þau stóðu bara fyllilega við það. Þannig að Björgólfur fékk gefins hlut sem ég átti í félaginu sem í dag eru umtalsverð verðmæti og hlaupa á hundruðum milljóna dollara,“ sagði Róbert. Í svaragrein Björgólfs lýsti hann þessu með öðrum hætti: „Óbjöguð er sagan svona: Róbert skuldaði Glitni milljarða á milljarða ofan. Þær skuldir voru að mestu afskrifaðar, en bankinn leysti auðvitað til sín þær eignir sem voru veðsettar honum, þar á meðal eignarhlut Róberts í Actavis. Hlut sem hann hafði fengið að mestu gefins og varð verðlaus undir hans stjórn. Að halda því fram að ég hafi fengið þann hlut gefins sýnir undarlegt innsæi stórforstjórans á því hvernig viðskipti ganga fyrir sig.“ Róbert sagði í kjölfarið við Vísi að hann ætlaði ekki að eltast við rangfærslur Björgólfs. „En mig langar að bjóða honum og félögum hans í Color Run á morgun en við eigum nokkra miða eftir óselda. Það hafa allir gott af góðri hreyfingu og skemmtilegum félagsskap,“ sagði Róbert, en litahlaupið fór fram undir merkjum Alvogen. Endalaus málaferli Frá og með árinu 2010 hófust stanslausar málshöfðanir og málaferli á milli Björgólfs og Róberts og félaga þeirra. Í október það ár greindi Stöð 2 frá því að Róbert hefði höfðað mál gegn tveimur dótturfélögum Novators, félagi Björgólfs, þar sem hann krafðist 4,6 milljarða króna. Róbert sagði árangurstengda þóknun frá því að hann var forstjóri Actavis vera vangreidda. Nokkrum mánuðum síðar var greint frá því í Fréttatímanum að félag Björgólfs, BeeTeeBee ltd. hefði stefnt Róberti til þess að greiða 1,2 milljarða króna skuld vegna láns sem félag Róberts, Burlington Worldwide Limited, hefði tekið árið 2005. Lánstíminn hefði verið tvö ár en framlengdur 2007 til ársins 2009. Félög Björgólfs voru dæmd til að greiða Róberti 20 milljónir evra, en Róbert var gert að greiða öðru félagi Björgólfs 7,7 milljónir evra. Í kjölfarið var greint frá því að félög Björgólfs væru eignalaus og því fengi Róbert ekkert upp í kröfur sínar. Hins vegar var skuld Róberts við Björgólf í persónulegri ábyrgð hans. Fyrrverandi félagarnir tveir enduðu á því að gera dómsátt árið 2012 um að ljúka málaferlunum. Greint var frá því í Vísi að Róbert Wessman hefði skrifað undir skuldabréf upp á 5 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 800 milljóna króna, sem hann þyrfti að greiða Björgólfi Thor og Actavis. Síðar sagði Róbert að sú dómsátt hefði verið Björgólfi mjög hagstæð. Þau orð Róberts var að finna í tilkynningu sem hann sendi á fjölmiðla árið 2014 í tilefni annarrar málshöfðunar Björgólfs á hendur Róberti. Þá stefndi Björgólfur einnig Árna Harðarsyni, einum nánasta samstarfsmanni Róberts. Sú stefna varðaði viðskipti þeirra árið 2007 og krafðist Björgólfur tveggja milljóna evra eða rúmlega 300 milljóna króna, í skaðabætur vegna viðskiptanna. Þetta svar Róberts vakti sérstaka athygli fyrir þær sakir að hann skoraði á Björgólf að taka þátt í hinni marumtöluðu ísfötuáskörun, sem var griðarlega vinsæl um heim allan á þeim tíma. Hér má sjá dæmi um ísfötuáskörun. „Ég vil nota tækifærið og skora á Björgólf Thor að fara í ísfötubað, enda virðist hann þurfa smá kælingu. Þannig má líka komast hjá því að eyða tíma og fjármunum dómstóla í að fjalla um svona tilhæfulaus mál.“ Róbert og Árni voru sýknaðir bæði í héraðsdómi og Hæstarétti. Málið á bak við njósnirnar Síðan var það mál fyrrverandi hlutahafa Landsbankans gegn Björgólfi sem hafði verið stærsti eigandi bankans fyrir hrun. Björgólfur var sakaður um að leyna hluthöfum bankans mikilvægum upplýsingum. Það var vegna þess máls sem áðurnefndar njósnaaðgerðir fóru fram haustið 2012, en þær beindust meðal annars að Róberti. Greint var frá því í Kveik í síðustu viku að Björgólfur hafi talið hópmálsóknarfélag hluthafa bankans vera á snærum Róberts, og að hann hafi viljað sanna það. Jafnframt hafi hann viljað komast að því hvernig félagið hefði fengið gögnin sem stefna þess byggði á. Í færslu sem birtist á heimasíðu Björgólfs árið 2015 benti hann á að í umfjöllun Kjarnans hefði komið fram að tveir þriðju af hlutum málsóknarfélagsins væru í eigu Urriðahæðar. Það félag hefði ekki átt neitt í Landsbankanum þegar hann féll heldur sankað að sér afskrifuðum hlutabréfum lífeyrissjóða eftir hrun. „Í daglegu tali kallast félög sem þessi hrægammasjóðir. Samkvæmt frétt Kjarnans er eigandi þessa hrægammasjóðs Árni Harðarson, starfsmaður Róberts Wessman. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að á milli okkar hefur andað köldu síðan mér var nauðbeygður kostur að reka Róbert úr forstjórastóli Actavis eftir að félagið fór á hliðina undir hans stjórn. Þeir telja sig eiga harma að hefna og hafa leitað að átyllu til að fara í mál við mig. Átylluna fundu þeir að endingu í hugarburði um að ég beri ábyrgð á reikningsskilum Landsbanka Íslands,“ skrifaði Björgólfur. Hann sagði „fingraför þessara kumpána“ hafa verið á málinu frá upphafi og að þeir hefðu platað aðra hluthafa til að taka þátt í málsókninni með sér. „Hinir ljósfælnu gammar og leppar þeirra kæra sig kollótta þótt almennir hluthafar séu blekktir og trúverðugleika lífeyrissjóðanna stefnt í voða. Lægra verður varla lagst,“ sagði Björgólfur. Í fyrra lauk því máli með um milljarðs króna sáttagreiðslum Björgólfs til hluthafanna, en þar féllst Róbert á að fá ekki krónu. Björgólfur viðurkenndi þó enga sök með sáttagreiðslunni. Reyndist á bak við kaupin sem komu Róberti í opna skjöldu Björgólfur og Róbert hafa báðir tengst rekstri fjölmiðla. Átök þeirra tveggja í tengslum við þá birtust hvað helst í september árið 2017 þegar Sigurður G. Guðjónsson lögmaður keypti helstu eignir Pressunnar, sem átti fjöldann allan af fjölmiðlum, meðal annars DV og aðra tengda miðla. Þá hafði Pressan verið í 68 prósenta eigu félagsins Dalsins, sem var í jafnri eigu nokkurra fjárfesta, þar á meðal Róberts. Eftir söluna sat Dalurinn eftir með útgáfufélagið Birtíng og héraðsfréttamiðla. Eftir að greint var frá kaupum Sigurðar sögðu Dalsmennn að þeir hefðu ekki vitað af kaupunum fyrr en þau hefðu verið frágengin. Jafnframt sögðust þeir forvitnir að fá að vita hvaða fjárfestar stæðu að baki Sigurði. Í kjölfarið hófust miklar erjur milli Dalsmanna og Björns Inga Hrafnssonar sem hafði verið stjórnarformaður Pressunnar. Og í desember sama ár fór Pressan í þrot. DV var rekið áfram undir félaginu Frjálsri Fjölmiðlun, sem var í eigu Sigurðar. Það var síðan árið 2020 sem það kom í ljós að Novator, félag Björgólfs, hefði fjármagnað kaup Sigurðar. Það hefði hann gert með því að lána Sigurði að minnsta kosti 745 milljónir. Áður hafði Ragnhildur Sverrisdóttir, þáverandi talskona Björgólfs, haldið því fram í fjölmiðlum að Björgólfur hefði ekki komið nálægt kaupunum. Í umfjöllun Kjarnans um málið segir að sá orðrómur að Björgólfur hafi staðið að baki Sigurði hefði lengi verið til staðar. „Sá orðrómur byggði meðal annars á því að með kaupunum á miðlunum, í september 2017, hafi hann náð að gera gömlum fjandmönnum sínum, Róberti Wessman og Árna Harðarsyni, skráveifu,“ sagði í Kjarnanum. Hægri hönd Róberts á fund með Björgólfi Halldór Kristmansson, þáverandi samskiptastjóri Alvogen og náinn samstarfsmaður Róberts til margra ára, bar Róbert þungum sökum í mars 2021. Hann hvatti stjórnir fyrirtækjanna til að víkja Róberti úr starfi forstjóra vegna stjórnarhátta hans. „Ég tel að morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir, er varða meinta óvildarmenn og ærumeiðingar í þeirra garð, sé í raun óverjandi hegðun forstjóra alþjóðlegra fyrirtækja. Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um hæfi hans sem stjórnanda,“ sagði Halldór í tilkynningu til fjölmiðla, þar sem hann sagðist hafa gögn sem sýndu að hann hefði verið beittur óeðlilegum þrýstingi til að koma höggi á óvildarmenn Róberts. Einnig sagði Halldór að Róbert hefði ráðist á hann í vitna viðurvist og orðið vitni að sambærilegum viðburði. Í kjölfarið sendi Alvogen frá sér yfirlýsingu þar sem að sagði að engin gögn bentu til þess að neitt væri athugavert við stjórnunarhætti Róberts. Því væri engin ástæða er til þess að aðhafast neitt. Þá sagði Róbert að sér þætti leiðinlegt að langt samstarf þeirra Halldórs lyki með þessum hætti. Ljóst væri af bréfasendingum lögmanna Halldórs að ásakanir hans væru settar fram í fjárhagslegum tilgangi, en hann hefði krafist greiðslna. „Fyrir mig eru þessar ásakanir mjög mikil vonbrigði enda vegið að mínum starfsheiðri og persónu. Mér þykir mjög miður að samstarfi okkar Halldórs til 18 ára hafi lokið með þessum hætti,“ sagði Róbert. Sjá nánar: Róbert segir miður að átján ára samstarfi við Halldór ljúki svona Málið vakti mikla athygli, ekki síst þegar Stundin birti SMS-skeyti Róberts til samstarfsmanna sína. Það var þegar þeir báru vitni í áðurnefndu skaðabótamáli Björgólfs Thors á hendur honum árið 2014. „Ég mun ganga frá ykkur lygara skíthællinn þinn“ og „Bottomlænið er að þú ert dauður ég lofa.“ voru á meðal þeirra skilaboða sem Stundin birti. Að sögn Láru Ómarsdóttur, þáverandi upplýsingafulltrúa Róberts, baðst hann afsökunar á framkomu sinni í beinu framhaldi. „Hann var í flugvél þegar hann sendi þessi skilaboð út af þessu dómsmáli, dómsmáli sem Róbert vann svo. Þessir menn höfðu borið vitni í málinu og Róbert reiddist yfir því og sendi skilaboðin – sem eru ósæmileg í alla staði – en hann hafði strax samband símleiðis og baðst strax afsökunar, og baðst svo aftur afsökunar bréfleiðis með formlegu afsökunarbréfi,“ sagði Lára við Vísi. Nokkrum dögum seinna var greindi Markaðurinn í Fréttablaðinu frá fundi Halldórs og Björgólfs sem átti sér stað í nóvember árið áður. Alvogen stefndi honum vegna fundarins og taldi að með honum hefði Halldór gerst sekur um alvarlegt trúnaðarbrot. Fundurinn væri með öllu óeðlilegur og upplýsingar um hann hefðu komið fyrirtækinu í opna skjöldu. Halldór sagði í tilkynningu til fjölmiðla að á þessum fundi hefði hann spurt Björgólf út í ósæmilega hegðun Róberts, þegar hann var forstjóri Actavis. Halldór hefði fengið það á hreint að Róbert hefði undir áhrifum áfengis hringt í aðstoðarforstjóra Actavis og gert tilraun til að segja honum upp störfum. Síðan hefði Björgólfur umsvifalaust sagt Róberti upp störfum. „Ég taldi þessar upplýsingar mikilvægar fyrir rannsókn málsins og sýni að ósæmileg hegðun Róberts nái yfir að minnsta kosti 12 ára tímabil. Björgólfur Thor virðist því vera eini maðurinn sem hafi sýnt kjark til að stöðva ósæmilega hegðun Róberts,“ sagði Halldór. Vildi að Halldór myndi leggja fram gögn Þessi gögn Halldórs áttu aftur eftir að koma til umræðu í áðurnefndu máli hluthafa Landsbankans gegn Björgólfi. Þá voru tvö mál til skoðunar fyrir dómi sem vörðuðu 600 milljóna króna skaðabótakröfu Vogunar hf. og fiskveiðihlutafélagsins Venusar hf. á hendur Björgólfi vegna falls Landsbankans. Björgólfur krafðist þess að Halldór myndi afhenda greinargerð og tugi tölvupósta og önnur dómsskjöl sem lágu fyrir í máli Alvogen gegn Halldóri. Hann taldi þau sýna hvernig Róbert hefði haft stjórn á málsókninni. Einnig vildi hann að Halldór yrði kvaddur fyrir dóminn. Máli sínu til stuðnings vísaði Björgólfur til tilkynningar sem Halldór sendi fjölmiðlum þar sem hann sagði að Róbert og lykilstjórnendur Alvogen og Alvotech, í nafni hluthafa Landsbankans, hefðu haft fulla stjórn á hópmálsókninni gegn Björgólfi. Í þessari tilkynningu Halldórs sem fjallaði um það hvernig hann vildi meina að Róbert hefði reynt að klekkja á meintum óvildarmönnum sínum hélt hann því einnig fram að það hefði reynst ákveðnum mönnum dýrkeypt að þiggja boð í afmælisveislu Björgólfs. Halldór lagðist gegn því að verða við beiðninni. Hann sagðist ekki gera sér grein fyrir því hvaða þýðingu gögnin myndu hafa fyrir málið. Í úrskurði héraðsdóms sagði að Halldór segðist „fullviss um að ef hann afhendi sóknaraðila gögnin, þá verði reynt að nota það gegn honum“ bæði í máli Alvogen gegn honum og almennt. Einnig væri honum mikið í mun að brjóta ekki hugsanlegar trúnaðarskyldur sínar gagnvart fyrrum vinnuveitanda. Málinu var vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur. Landsréttur sendi það aftur í hérað. Þá var kröfum Björgólfs að mestu hafnað, nema einni um að Halldór ætti að afhenda ákveðið gagn málsins. Úrskurðurinn var kærður til Landsréttar sem hafnaði kröfum Björgólfs alfarið. Líkt og áður segir lauk máli hluthafanna gegn Björgólfi með dómsátt í fyrra. Og í lok árs 2022 féll Alvogen frá málsókn sinni á hendur Halldóri. Er bardaginn búinn eða í fullum gangi? Átök þeirra Björgólfs Thors og Róberts Wessman hafa staðið yfir í um tveggja áratuga skeið. Erjurnar hafa bæði verið uppi á yfirborðinu, líkt og hefur sést í opinberum skrifum og dómsmálum sem þeir hafa höfðað gegn hvorum öðrum, en líka undir niðri, eins og kom í ljós með uppljóstrun njósnamálsins. Átökin teygja sig meðal annars niður í Vatnsmýri þar sem má finna tvær stórar byggingar og flaggskip þeirra hér á landi í fyrirtækjarekstri; annars vegar Grósku sem er að hluta í eigu Björgólfs í gegnum fasteignafélagið Heima og svo höfuðstöðvar Alvotech þar sem Róbert er forstjóri. Samanburður á því hvor byggingin er fallegri eða hvor forstjórinn er með fallegra útsýni af skrifstofu sinni verður látinn eiga sig í þessari samantekt. Hvorki Björgólfur Thor né Róbert hafa viljað tjá sig opinberlega um njósnir þess fyrrnefnda á þeim síðarnefnda og fyrrverandi hluthöfum Landsbankans sem hulunni var svipt af á dögunum. Á meðan ekkert heyrist eða fréttist er ómögulegt að átta sig á því hvort þeir deili sem aldrei fyrr, fyrir luktum tjöldum, eða íhugi að grafa stríðsöxina.
Átök auðkýfinganna: „Ekki farið fram hjá neinum að á milli okkar hefur andað köldu“ Viðskipti innlent
Átök auðkýfinganna: „Ekki farið fram hjá neinum að á milli okkar hefur andað köldu“ Viðskipti innlent