Þetta fullyrðir spænska blaðið Marca í dag og segir að allt sé frágengið en lengi hefur verið orðrómur í gangi um að Alonso myndi taka við Real.
Blaðið segir að nafn Ancelotti verði ritað gylltum stöfum í sögubókum fótboltans eftir stjórnartíð hans hjá Real, enda hafi liðið undir hans stjórn unnið þrjá Evrópumeistaratitla, þrjá heimsmeistaratitla, tvo Spánarmeistaratitla, tvo bikarmeistaratitla og fleira til. Þá sé enn möguleiki á Spánarmeistaratitli í vor.
Marca segir að Ancelotti og Real Madrid hafi samþykkt að einbeita sér alfarið að kapphlaupinu við Barcelona um spænska meistaratitilinn en að áður hafi verið ákveðið að Ancelotti myndi kveðja í góðu þann 25. maí.
Samkomulag þess efnis var frágengið eftir tap Real gegn Arsenal í Meistaradeildinni en þá munu báðir aðilar hafa verið sammála um að komið væri að endastöð. Fram að því hafi stjórnendur Real verið að kanna markaðinn en Alonso verið efstur á blaði.
Ancelotti vissi af áhuga brasilíska landsliðsins og samkvæmt Marca mun hann taka við því og leiða það á HM á næsta ári.
Alonso mun skrifa undir samning við Real sem gildir til næstu þriggja ára. Þessi 43 ára Spánverji lék með Real á árunum 2009-14 en hefur verið þjálfari Leverkusen frá árinu 2022 með afar farsælum árangri. Undir hans stjórn stöðvaði Leverkusen einokun Bayern Münhcen og varð tvöfaldur meistari í Þýskalandi í fyrra og komst í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.