Handbolti

Al­freð reiður út í leik­menn sína

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason lét leikmenn sína heyra það í Sviss í fyrrakvöld, í undankeppni EM.
Alfreð Gíslason lét leikmenn sína heyra það í Sviss í fyrrakvöld, í undankeppni EM. EPA-EFE/TIL BUERGY

Þýskir miðlar segja frá því að Alfreð Gíslason, þjálfari þýska landsliðsins í handbolta, hafi verið allt annað en sáttur við suma af leikmönnum sínum eftir 32-32 jafnteflið við Sviss í fyrrakvöld.

Þýska liðið var þremur mörkum undir í hálfleik, 14-11, og var 28-24 undir þegar tíu mínútur voru eftir en náði að lokum í stig með marki Juri Knorr úr vítakasti á síðustu sekúndu.

Þetta dugði Þýskalandi til að tryggja sér efsta sæti síns riðils og inn á EM en Alfreð var ekki skemmt yfir því hve tæpt það stóð og lýsti yfir óánægju með leikmenn:

„Mér fannst sumir þeirra taka því of rólega í þessum leik,“ sagði Alfreð samkvæmt þýskum miðlum en hann var sérstaklega óánægður með fyrri hálfleikinn þegar hann sá „ekkert frá skyttunum, nema eitt vítakast. Við létum alltaf binda okkur niður með því að spila of hægt. Ég get ekki útskýrt þetta,“ sagði Alfreð.

Vítakastið frá Knorr dugði þó til þess að Þjóðverjar hafa ekki að neinu að keppa í lokaleik undankeppni EM, þegar þeir mæta Tyrklandi í Stuttgart á sunnudaginn. Alfreð vill engu að síður sjá menn bæta sitt ráð.

„Við verðum einfaldlega að spila betur gegn Tyrklandi. Ég reikna með því að við munum nálgast leikinn öðruvísi. Það eru margir hlutir sem við þurfum að gera mikið, mikið betur en við gerðum [í fyrrakvöld],“ sagði Alfreð eftir leikinn í Sviss.

Læti í hálfleiksræðunni

„Auðvitað á svona lagað ekki að gerast hjá okkur,“ sagði Juri Knorr við Handball-World.

„Það vantaði orku alls staðar hjá liðinu. Það vantaði jafnvægi í vörn og sókn,“ sagði Knorr og bætti við að það hefðu verið læti í hálfleiksræðu Alfreðs.

Það var þó ekki allt alslæmt við leikinn að mati Alfreðs sem sagði „afar ánægjulegt“ að sjá frammistöðu hornamannanna Tim Nothdurft (3 mörk úr 3 tilraunum) og nýliðans Mathis Häseler (4 mörk úr 4 tilraunum). Þá hefðu Knorr og Luca Witzke verið góðir í seinni hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×