Innlent

Icelandair hættir rekstri stærstu flug­véla sinna

Kristján Már Unnarsson skrifar
Boeing 767-breiðþota Icelandair að lenda í Keflavík.
Boeing 767-breiðþota Icelandair að lenda í Keflavík. Vilhelm Gunnarsson

Ráðamenn Icelandair hafa tekið þá ákvörðun að hætta breiðþoturekstri og nota eingöngu mjóþotur í millilandafluginu. Þá er framundan að ákveða hvort aðeins verði reknar Airbus-þotur eða hvort Boeing Max-þoturnar verði áfram í flotanum.

Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um flotamál Icelandair en Boeing 767-breiðþoturnar eru stærstu þotur félagsins, taka 262 farþega, og með tveimur farrýmisgöngum um borð. 

Úr farþegarými Boeing 767-þotu Icelandair. Sjö sæti eru í hverri sætaröð og tveir gangvegir.KMU

Þær hafa verið í rekstri Icelandair frá árinu 2015. Þrjár slíkar eru í flotanum en núna hefur stjórn félagsins ákveðið að reka eingöngu mjóar þotur með einum miðjugangi í farrými.

„Það er samkeppnisforskotið okkar, að við getum flogið lengra í vestur og lengra í austur á þessum hagkvæmu mjóþotum heldur en samkeppnisaðilar á öðrum tengiflugvöllum hérna í kringum okkur. Það verður svona kjarninn í okkar starfsemi til framtíðar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Niðurstaðan er að hætta breiðþoturekstri. Við reiknum með að sumarið ’29 verði síðasta árið sem við verðum með 767-þoturnar í rekstri.“

Þessi ákvörðun gildir þó aðeins um farþegaflugið en félagið hefur einnig nýtt 767-þotur í fraktflugi.

Boeing 767-fraktþota Icelandair.Egill Aðalsteinsson

„Við erum með eina 767-breiðþotu fraktvél núna í fraktinni. Þannig að það er annað flotaverkefni hvernig fraktflotinn okkar verður til framtíðar.“

Stærsta spurningin er þó hvort að Icelandair muni í framhaldi af kaupum á Airbus A321-þotunum stefna að því að vera eingöngu með Airbus-flota eða hvort Boeing 737 MAX-þoturnar verði áfram reknar samhliða.

Boeing 737 max 9-þota Icelandair.Egill Aðalsteinsson

„Báðir kostir líta ágætlega út. Það er einföldun í því að vera með sömu tegund, sama framleiðanda.

En á sama tíma þá er MAX-vélin frábær vél fyrir okkar leiðakerfi og er að standa sig mjög vel. Og það getur alveg komið til greina að vera með hana svona sem kjarnavél á styttri áfangastaði, til Evrópu og austurstrandar Bandaríkjanna, og vera svo með Airbus LR og XLR á lengri staði í Norður-Ameríku og svo jafnvel lengra í austur.

Þannig að þessir tveir möguleikar koma báðir mjög sterklega til greina. Og núna er framundan greiningarvinna og síðan ákvörðun hvað þetta varðar,“ segir forstjóri Icelandair.

Fyrsta Airbus-þota Icelandair yfir Reykjavíkurflugvelli. Nýju Airbus A321 LR-þotur félagsins hafa álíka flugþol og Boeing 767-þotur félagsins.Matthías Sveinbjörnsson


Tengdar fréttir

Icelandair skoðar næstu skref í þróun flugflotans

Ráðamenn Icelandair hyggjast á næstu misserum taka ákvörðun um það hvort stefnt verði á að hafa eingöngu Airbus-þotur í flugflotanum og eins hvort breiðþotur verði hluti af framtíðarflota félagsins.

Fagna þotunni sem markar tímamót í sögu Icelandair

Icelandair-menn fögnuðu tímamótum með komu fyrstu Airbus-þotu félagsins til landsins í dag og um leið því að fá farkost sem eyðir þrjátíu prósentum minna eldsneyti á hvert sæti en þotan sem hún leysir af hólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×