Körfubolti

KKÍ breytir reglum varðandi er­lenda leik­menn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Grindavíkur og Stjörnunnar í úrslitakeppni Bónus-deildar karla.
Úr leik Grindavíkur og Stjörnunnar í úrslitakeppni Bónus-deildar karla. Vísir/Guðmundur Þórlaugarson

Stjórn Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, ákvað að gera breytingu á reglum varðandi erlenda leikmenn á stjórnarfundi sambandsins sem fram fór á laugardag. Þetta staðfesti Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, í samtali við Vísi.

Á stjórnarfundi KKÍ á laugardag var ákveðið að gera þá breytingu að lið megi vera með fjóra erlenda leikmenn á skýrslu og allir megi vera inn á vellinum. Um er að ræða eitt Kana ígildi en opið fyrir bæði Bosman A og B-leikmenn.

Hannes S. Jónsson.VÍSIR/VILHELM

„Bosman A eru leikmenn sem koma frá löndum innan EES-svæðisins á meðan Bosman B eru Evrópumenn sem koma frá löndum utan EES, til að mynda Serbía. Þannig geta lið verið með þrjá leikmenn frá Evrópu ásamt einum leikmanni frá Bandaríkjunum. Það má segja að það sé verið að opna þetta meira en áður var,“ sagði Hannes við Vísi.

Ákvörðunin var tekin út frá ályktunartillögu sem kom á síðasta þingi KKÍ. „Þar var stjórn KKÍ hvött til þess að skoða málið og reyna að fækka erlendum leikmönnum.“

„Frá og með næsta keppnistímabili mega vera fjórir erlendir leikmenn á skýrslu og átta íslenskir leikmenn. Af þessum fjórum erlendu leikmönnum má einn vera sem fellur ekki undir Bosman A og B skilgreininguna.“

„Það sem maður er að vonast eftir er að það komist samfella í þetta til framtíðar. Við horfðum til annarra landa sem hafa verið að gera þetta. Þessa vegna er verið að horfa í átta uppalda eða átta Íslendinga á skýrslu frekar en að takmarka hversu margir eru inn á vellinum hverju sinni, það væri erfitt í framkvæmd.“

Hannes tók einnig fram að KKÍ hefði horft til annarra landa í svipaðri stöðu. Jafnframt tók hann fram að sömu reglur gildi fyrir allar deildir bæði karla og kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×