Íslenski boltinn

Þróttur skoraði sex og flaug á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Röðuðu inn mörkum.
Röðuðu inn mörkum. Vísir/Diego

Þróttur Reykjavík fór létt með nágranna sína úr Víkinni þegar liðin mættust í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í fótbolta. Lokatölur 6-3 Þrótti í vil og góð byrjun liðsins á tímabilinu heldur áfram.

Heimakonur byrjuðu af gríðarlegum krafti og kom Þórdís Elva Ágústsdóttir þeim yfir strax á 6. mínútu. Sú átti eftir að láta að sér kveða. Þórdís Elva bætti við öðru marki sínu á 23. mínútu og fullkomnaði þrennuna á 35. mínútu, staðan 3-0 í hálfleik.

Ef Víkingar gerðu sér vonir um endurkomu eftir hálfleiksræðuna þá var slökkt á þeirri von í upphafi síðari hálfleiks þegar Brynja Rán Knudsen skoraði fjórða mark Þróttar. Unnur Dóra Bergsdóttir bætti við fimmta marki Þróttar áður en gestirnir minnkuðu muninn með tveimur mörkum. Bergdís Sveinsdóttir með fyrra og Dagný Rún Pétursdóttir það seinna.

Sigríður Theód. Guðmundsdóttir bætti hins vegar við sjötta marki heimaliðsins þegar enn voru 25 mínútur til leiksloka. Skömmu síðar minnkaði Ísfold Marý Sigtryggsdóttir muninn. Fleiri urðu mörkin þó ekki og lokatölur í Laugardal 6-3 Þrótti í vil sem er komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×