Handbolti

Birtir gamla mynd af sér í Barcelona-treyju: „Stór draumur að rætast“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ungur Viktor Gísli Hallgrímsson í treyju Barcelona.
Ungur Viktor Gísli Hallgrímsson í treyju Barcelona. instagram-síða viktors gísla

Viktor Gísli Hallgrímsson hefur lengi átt sér þann draum að spila fyrir Barcelona. Og hann rætist á næsta tímabili.

Landsliðsmarkvörðurinn fer til Evrópu- og Spánarmeistaranna frá Wisla Plock í Póllandi í sumar. Í viðtali við íþróttadeild í gær, eftir að félagaskiptin voru tilkynnt, sagði Viktor að markmiðið hefði alltaf verið að spila fyrir Barcelona, þó vissulega hafi hann vonast til að leika með fótboltaliði félagsins fyrst um sinn.

„Ég ætlaði mér alltaf að vera frammi hjá Barcelona sem barn en verð að láta þetta duga,“ segir Viktor hlæjandi.

Í gær birti Viktor skemmtilega mynd á Instagram af sér ungum í treyju Barcelona. „Stór draumur að rætast,“ skrifaði hann við myndina.

Frá og með næsta tímabili myndar Viktor markvarðateymi Barcelona með hinum danska Emil Nielsen sem er að margra mati talinn besti markvörður heims.

Viktor verður fjórði íslenski handboltamaðurinn til að spila fyrir Barcelona. Áður höfðu Viggó Sigurðsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson leikið fyrir liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×