Golf

Rosa­legur ráshópur McIlroy

Valur Páll Eiríksson skrifar
Það var langþráð þegar McIlroy gat loks klæðst græna jakkanum eftir sigur á Masters-mótinu fyrir mánuði síðan. Scottie Scheffler, sem hafði unnið mótið árinu áður, klæddi þann norður-írska í jakkann en þeir munu spila saman á fyrstu tveimur hringum PGA-meistaramótsins sem hefst á morgun.
Það var langþráð þegar McIlroy gat loks klæðst græna jakkanum eftir sigur á Masters-mótinu fyrir mánuði síðan. Scottie Scheffler, sem hafði unnið mótið árinu áður, klæddi þann norður-írska í jakkann en þeir munu spila saman á fyrstu tveimur hringum PGA-meistaramótsins sem hefst á morgun. Michael Reaves/Getty Images

PGA-meistaramótið í golfi hefst á morgun og mun gera það með látum. Skipuleggjendur mótsins hafa stillt svakalegri þrennu saman upp í ráshóp.

Rory McIlroy, nýkrýndur sigurvegari á Masters-mótinu, mun vera í ráshópi með efsta manni heimslistans, Scottie Scheffler, og ríkjandi PGA-meistara, Xander Schauffele. Þessir þrír munu því spila saman fyrstu tvo hringi mótsins á Quail Hollow-vellinum í Norður-Karólínu.

McIlroy vonast til að vinna annað risamótið í upphafi árs en síðastur til að vinna fyrstu tvö risamót ársins var Jordan Spieth árið 2015, sem vann þá Masters og US Open.

Spieth á hins vegar eftir að vinna PGA-meistaramótið á sínum ferli. Hann vonast til að fagna sigri um helgina og feta þannig í fótspor McIlroy til að klára alslemmuna; að vinna öll risamótin fjögur á ferlinum. McIlroy kláraði alslemmuna með sigri sínum á Masters-mótinu á dögunum.

Þessi þrenna, McIlroy, Scheffler og Schauffele munu ræsa klukkan 8:22 að staðartíma, klukkan 12:22 að íslenskum tíma. Það er skömmu eftir að bein útsending frá mótinu hefst á Vodafone Sport.

Bein útsending frá PGA-meistaramótinu hefst klukkan 12:00 á Vodafone Sport á morgun og mun standa yfir til klukkan 23:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×