Innlent

Ferðamannrúta kyrr­sett í að­gerðum lög­reglu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Ferðamennirnir biðu utan rútunnar meðan annar bílstjóri var kallaður út.
Ferðamennirnir biðu utan rútunnar meðan annar bílstjóri var kallaður út. Vísir

Ferðamannarúta var meðal farartækjanna sem voru kyrrsett í umfangsmikilli eftirlitsaðgerð lögreglu á Suðurlandsvegi í dag. Bílstjórinn hafði ekki tilskilin leyfi til að aka rútunni.

Fjöldinn allur af ökutækjum var stöðvaður þar sem bæði var verið að athuga ástand ökutækja og öryggisbúnaðar en einnig atvinnu- og landvistarleyfi bílstjóra. Ein rúta með ferðamönnum á vegum ME Travel var stöðvuð og kyrrsett þar sem bílstjórinn hafði ekki tilskilin leyfi til að aka rútunni.

Að sögn Jóns S. Ólasonar, yfirlögregluþjóns varðaði málið endurnýjun á tákntölunni 95 í skírteini bílstjórans. Ljúka þarf námskeiði á fimm ára fresti til að endurnýja tákntöluna en með henni hafa bílstjórar leyfi til að starfa við akstur innan EES svæðisins.

Fréttastofa ræddi við bílstjóra rútunnar á vettvangi sem fagnaði eftirliti lögreglu og virtist ekki meðvitaður um að leyfi hans væri ekki í gildi. Ferðamenn rútunnar sátu sem fastast í rútunni á meðan skoðunin fór fram. Þegar í ljós kom að bílstjórinn gæti ekki haldið för áfram, sem samkvæmt upplýsingum fréttastofu var á leiðinni Gullna hringinn um Gullfoss og Geysi, var kallaður út annar bílstjóri.

Fréttastofa hafði samband við Ásmund Einarsson, eiganda ME Travel, sem vildi ekki tjá sig um málið.

ME Travel komst í fréttirnar í febrúar þegar rúta á vegum fyrirtækisins festist á grasflötinni við Höfða í Reykjavík. Í ljós kom að bílstjórinn var óreyndur og hafði fyrr um daginn ekið á skilti við Pósthússtræti í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×