Viðskipti innlent

Selja allan eignar­hlut ríkisins í Ís­lands­banka

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Daði Már Kristófersson er fjármálaráðherra.
Daði Már Kristófersson er fjármálaráðherra. Vísir/Anton Brink

Tilkynnt hefur verið um aukið magn í útboði almennra hluta í Íslandsbanka og til stendur að selja allan eignarhlut ríkisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

„Ráðuneytið tilkynnir í dag að í ljósi umtalsverðrar heildareftirspurnar og fordæmalausrar eftirspurnar innanlands í útboðinu hefur það ákveðið að selja allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka hf. með því að virkja heimild til magnaukningar,“ segir í tilkynningu.

Útboðshlutirnir með magnaukningunni verði samtals 850.000.007 almennir hlutir, eða 45,2 prósent af útgefnu og útistandandi hlutafé í Íslandsbanka hf.

„Með tilliti til forgangs tilboðsbókar A, er gert ráð fyrir að fjárfestum verði tilkynnt um úthlutun vegna tilboðsbókar A þann 16. maí 2025 fyrir opnun markaða.“

„Komi til þess að frekari hlutir séu í boði eftir úthlutun til einstaklinga, munu fjárfestar í tilboðsbók B og C fá upplýsingar um úthlutun á miðvikudagsmorgun, þann 21. maí nk., með tilliti til þeirra úthlutunarreglna er fram koma í lögum nr. 80/2024.“

Gert er ráð fyrir að útboðinu ljúki í dag kl. 17:00 og geta fjárfestar breytt áskriftum fram til þess tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×