Erlent

Gerðu um­fangs­miklar á­rásir á Jemen

Samúel Karl Ólason skrifar
Israel Katz og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael í stjórnstöð hersins í dag.
Israel Katz og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael í stjórnstöð hersins í dag. Israel Katz

Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísrael, segir umfangsmiklar árásir hafa verið gerðar á Húta í Jemen í dag. Miklar skemmdir hafi verið unndar á höfnum undir stjórn Húta og flugvellinum í Sanaa.

Þá hótar Katz því að hætti Hútar ekki að skjóta eldflaugum að Ísrael muni verða gripið til frekari aðgerða. Ísraelar muni þá fara á eftir leiðtogum Húta.

„...eins og við gerðum við Deif og Sinwar-bræðurna á Gasa, Nasrallah í Beirút og Haniyeh í Tehran,“ skrifaði Katz á X.

Var hann þar að vísa til leiðtoga Hamas-samtakanna og Hezbollah, sem Ísraelar hafa fellt eða reynt að ráða af dögum.

„Við munum einnig elta uppi Abd Malek al-Houthi [Leiðtoga Húta] í Jemen.“

Í þessari viku hafa Hútar skotið nokkrum eldflaugum og drónum að Ísrael. Það hafa þeir reglulega gert frá því Ísraelar hófu hernaðinn á Gasaströndinni.

Bandaríkjamenn hafa einnig gert umfangsmiklar árásir á Húta vegna árása þeirra á Ísrael og skip á Rauðahafi. Þær árásir voru mjög umfangsmiklar og stóðu yfir í um tvo mánuði.

Trump lýsti þó á dögunum óvænt yfir vopnahléi við Húta og sagði leiðtoga þeirra hafa samþykkt að hætta árásum á skip á Rauðahafi, að hluta til.

Hútar samþykktu ekki að hætta árásum á skip sem tengjast Ísrael eða árásum á Ísrael.

Samkvæmt frétt Times of Israel komu fjöldi flugmanna hersins að árásunum, auk dróna, en herinn segir hafnirnar og flugvöllinn sem árásirnar beindust að hafa verið notaðar til flytja vopn frá Íran í hendur Húta.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ísraelar gera árásir á þessa staði. TOI hefur eftir öðrum miðlum í Ísrael að beðið hafi verið með árásirnar þar til Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, væri farinn frá Mið-Austurlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×