Fótbolti

Fjögur mörk og tvö rauð í Grinda­víkur­sigri í Laugar­dalnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Grindvíkingar fögnuðu í Laugardalnum í kvöld.
Grindvíkingar fögnuðu í Laugardalnum í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Grindavík vann góðan sigur á Þrótti Reykjavík þegar liðin mættust á Þróttarvellinum í Laugardal í dag. Grindvíkingar skoruðu fjögur mörk í leiknum en misstu tvo menn af velli með rautt spjald.

Grindvíkingar voru án sigurs eftir fyrstu tvær umferðirnar í Lengjudeildinni eftir tap gegn Selfyssingum í fyrstu umferð og jafntefli gegn Fjölni í annarri umferð. Þróttarar unnu hins vegar gegn Keflavík í öðrum leik sínum eftir að hafa gert jafntefli gegn Leikni í fyrsta leik.

Það voru hins vegar gestirnir frá Grindavík sem voru sterkari aðilinn í kvöld. Ármann Finnbogason og Breki Hermannsson komu liðinu í 2-0 í fyrri hálfleik en Eiríkur Þorsteinsson Blöndal minnkaði muninn í 2-1 örskömmu áður en flautað var til hálfleiks.

Í síðari hálfleik komust Grindvíkingar í 4-1 með tveimur mörkum á fjórum mínútum um miðjan hálfleikinn, fyrst skoraði Adam Árni Róbertsson og Breki bætti við öðru marki stuttu síðar.

Fjórum mínútum eftir mark Breka var Adam Árni hins vegar rekinn af velli og Jakob Gunnar Sigurðsson skoraði sárabótamark fyrir Þróttara á lokamínútunni. Í uppbótartíma fékk Sölvi Snær Ásgeirsson síðan beint rautt spjald fyrir brot og Grindvíkingar luku því leik tveimur færri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×