„Þetta hefur verið mikið sjónarspil síðustu daga en ég hef ekki séð þá stökkva svona rosalega. Hann er mikið að berja hafflötinn, sem hljómaði eins og skot úr haglabyssu,“ segir Baldur í samtali við blaðamann Vísis. Hann segir „helvítis læti í þessu“.

Hann segist hafa fengið frænda sinn, sem býr við hliðina á sér á næsta bæ, til að koma og taka myndir af þessu.

„Við erum á því að hann hafi verið að fagna því að það verður ekki settur vítissóti í Hvalfjörðinn. Við erum ekki hrifin af því,“ segir Baldur hlæjandi. En hann býr nánast við fjöruborðið í Hvalfirðinum sem er auðvitað perla í nágrenni Reykjavíkur.
„Baldur í Leyni. En hann hefur örugglega verið í æti. Þorskurinn kemur gengur inn í fjörðinn, hann hrygnir þarna.“
Baldur segist hafa alist upp í Hvalfirðinum en þaðan eru afi hans og mamma. „Svo byggðum við okkur hús í fjöruborðinu sem heitir Leynir.“
Baldur segir mikið dýralíf í Hvalfirðinum, hann sér súluna steypa sér í ætið, haförn er með laup í næsta nágrenni og æðarvarp er nokkuð sem hann reynir að vernda.
„Það er dýrðlegt að fylgjast með og hjálpa til við að koma á fót æðavarpi. Þar er ég að koma á fót Þingeyingi, sem er fuglahræða sem gerir ekkert annað en snúast í kringum sjálfan sig. Til að halda bjöllunni frá. Hún er skæð. Allt er þetta baráttan um brauðið.“

Eyjólfur segist hafa verið að ganga til náða þegar Baldur hringdi og dreif hann út til að taka myndir af hnúfubaknum.
„Ég hef aldrei séð þetta áður. Ekki svona stökkvandi. Ég brunaði niður í fjöru til að mynda hann.“
Eyjólfur segist ekki sérfróður um hvalahegðun. „Er hann ekki bara að smala æti? Hann lamdi uggunum trekk í trekk og svo stökk hann. Og svo komu mávarnir þegar hann var horfinn.“