Gugga í gúmmíbát skaust upp á íslenska stjörnuhimininn fyrir nokkrum árum sem áhrifavaldur og er ein sú vinsælasta hérlendis á samfélagsmiðlinum Instagram með rúmlega 28 þúsund fylgjendur.
Hún og Patrekur Jaime hafa sést á flestum leikum Stjörnunnar síðustu mánuði og þau skilja skvísulætin ekki eftir heima.
„Ég myndi náttúrulega hiklaust segja að það megi alltaf fara alla leið með skvísulætin sama hvar maður er,“ segir Gugga í samtali við blaðamann.

„Að mínu mati einkennist körfuboltatískan af töff flíkum, smá svona götustíl (e. street wear) í bland við smá lúxus líka, sérstaklega ef þú ert á gólfinu eða situr „courtside“ eins og stórstjörnurnar gera úti.
Það er gaman að leggja smá áherslu á streetwear, kúl og þægileg föt. Til dæmis fara í góðar gallabuxur og blanda því svo við eitthvað skemmtilegt eins og áberandi jakka, sólgleraugu eða skó. Það er gott að velja eitthvað svona eitt í klæðnaðinum sem vekur athygli.
Það er náttúrulega alltaf kúl að mæta í treyju og sérstaklega ef maður finnur „vintage“ treyju, þá ertu í geggjuðum málum.
Svo má auðvitað leika sér með litina, taka litina sem eru í stíl við liðið sem þú styður og finna skemmtilega leið til að setja saman flíkur sem passa við þá. Skemmtilegast af öllu er svo auðvitað að líða vel í því sem þú ert og fara þínar eigin leiðir.“
Oddaleikur Tindastóls og Stjörnunnar fer fram í Síkinu á Sauðárkróki klukkan 20:00 í kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.