Upp­gjörið: Þór/KA - Stjarnan 1-0 | Mark Söndru Maríu skildi á milli

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Sandra María Jessen er búin að skora sex mörk í síðustu þremur leikjum Þórs/KA.
Sandra María Jessen er búin að skora sex mörk í síðustu þremur leikjum Þórs/KA. vísir/diego

Þór/KA tók á móti Stjörnunni í 7. umferð Bestu deildar kvenna í dag í Boganum á Akureyri. Heimamenn höfðu betur í leiknum og tryggðu sér mikilvægan sigur. Með sigrinum eru Þór/KA með fimmtán stig og sitja í 4. sæti deildarinnar eins og staðan er núna.

Leikurinn fór vel af stað og voru Þór/KA mikið ógnandi fyrstu 20 mínútur leiksins. Á 21. mínútu leiksins skoraði Sandra María Jessen fyrsta mark leiksins þar sem hún fékk boltann vinstra megin í teignum og átti laglegt skot í fjærhornið. Sjötta mark Söndru Maríu í síðustu þremur leikjum.

Bæði lið héldu áfram að sækja, en engin sóknanna reyndist nægilega hættuleg til þess að skila einhverju, hvorki sóknir né sendingar skiluðu sér sem skyldi. Heimakonur leiddu því leikinn 1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur einkenndist af því sama þar sem sóknir einkenndust af slæmum ákvörðunum og ekki nægilega góðum sendingum. Bæði lið áttu erfitt með að finna taktinn og náðu ekki að spila vel saman. Samspilið skorti útsjónarsemi sem skilaði sér í því að fá hættulega færi sköpuðust í leiknum.

Þór/KA var þó ögn sterkari aðilinn heilt yfir en vantaði herslumuninn þegar kom að síðasta þriðjungnum.

Atvik leiksins

Á 37. mínútu leiksins féll Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir í teig Þór/KA en Stefán Ragnar Guðlaugsson, dómari leiksins, dæmdi ekkert og sagði henni að standa upp.

Stjörnur og skúrkar

Jessica Grace Berlin, markmaður Þór/KA, og Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving, markmaður Stjörnunnar, stóðu sig með prýði og voru líklega bestu leikmennirnir á vellinum.

Sandra María Jessen átti nokkur fín tækifæri á vinstri kantinum og skoraði einnig eina mark leiksins á 21. mínútu.

Úlfa Dís var afar öflug hjá Stjörnunni en náði ekki að gera sér mat úr sóknunum.

Dómarar

Stefán Ragnar, Sigurjón Þór Vignisson og Birkir Örn Pétursson dæmdu þennan leik ágætlega í dag. Það heyrðist aðeins í mönnum kvarta yfir nokkrum ákvörðunum hvað varðar brot og hvort liðið hafi átt að eiga innköstin.

Stemning og umgjörð

Það var góð stemning í Boganum og tilboð á pizzu í sjoppunni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira