Íslenski boltinn

Sjáðu lag­legt sigur­mark Ídu gegn meisturunum og vítavörslu Kötlu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ída Marín Hermannsdóttir skoraði sigurmark FH gegn Breiðabliki.
Ída Marín Hermannsdóttir skoraði sigurmark FH gegn Breiðabliki. vísir/ernir

FH varð í gær fyrsta liðið til að vinna Íslandsmeistara Breiðabliks í Bestu deild kvenna á tímabilinu. Lokatölur í Kaplakrika 2-1, FH-ingum í vil. Tveir aðrir leikir fóru fram í gær. Fram sigraði Tindastól, 1-0, og Valur og Víkingur gerðu 1-1 jafntefli á Hlíðarenda. Í dag vann Þór/KA 1-0 sigur á Stjörnunni.

Öll mörkin í leik FH og Breiðabliks komu í fyrri hálfleik. Sammy Smith kom Blikum yfir á 7. mínútu en Maya Lauren Hansen jafnaði þremur mínútum síðar.

Á 32. mínútu skoraði Ída María Hermannsdóttir svo sigurmark heimakvenna með laglegri hælspyrnu eftir fyrirgjöf Thelmu Karenar Pálmadóttur.

Breiðablik er enn á toppi deildarinnar með sextán stig, jafn mörg og Þróttur og FH.

Murielle Tiernan reyndist hetja Fram gegn sínum gamla liði, Tindastóli. Hún skoraði eina mark leiksins í uppbótartíma.

Þetta var þriðji sigur Fram í síðustu fjórum leikjum en liðið er í 6. sæti með níu stig. Tindastóll er í 8. sæti með sex stig.

Sigurborg Katla Sveinbjörnsdóttir reyndist hetja Víkings gegn Val en hún varði vítaspyrnu Jordyn Rhodes í uppbótartíma.

Fanndís Friðriksdóttir kom Valskonum yfir eftir hálftíma en Dagný Rún Pétursdóttir jafnaði á 54. mínútu. Heimakonur fengu svo gullið tækifæri til að tryggja sér öll þrjú stigin en Katla kom í veg fyrir það.

Valur, sem hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu fjórum leikjum, er í 7. sæti deildarinnar með átta stig. Víkingur, sem hefur bara unnið einn deildarleik, er í níunda og næstneðsta sæti með fjögur stig.

Einn leikur var á dagskrá í dag. Fæstum að óvörum var það Sandra María Jessen, markadrottning síðasta tímabils, sem skoraði eina markið í 1-0 sigri Þórs/KA á Stjörnunni.

Klippa: Þór/KA 1-0 Stjarnan

Þór/KA er með 15 stig í 4. sæti, aðeins stigi frá toppliðunum þremur. Stjarnan er með níu stig í sjötta sæti deildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×