Lokatölur í Grindavík urðu 3-4 gestunum í vil en Ármann Ingi Finnbogason minnkaði muninn úr víti þegar uppgefinn uppbótartími var liðinn og Grindvíkingar höfðu því ekki tíma til að laga stöðuna frekar.
Heimamenn jöfnuðu metin í 2-2 þegar seinni hálfleikur var rétt skriðinn af stað en tvö mörk frá Þórsurum í kjölfarið gerðu svo gott sem útum leikinn. Sigfús Fannar Gunnarsson skoraði tvö mörk fyrir Þór í dag og er þá orðinn markahæstur í deildinni með fimm mörk.
Mikilvægur sigur fyrir Þórsara en liðin voru jöfn að stigum í 7. og 8. sæti fyrir leikinn í dag, bæði með fjögur stig eftir þrjá leiki.
Hádramatík á Húsavík
Á Húsavík gekk heilmikið á í uppbótartíma en í leik Völsungs og Fjölnis var staðan 1-1 fram á 90. mínútu. Bjarni Þór Hafstein, leikmaður Fjölnis fékk þá að líta rauða spjaldið og léku gestirnir því manni færri síðustu mínúturnar. Elfar Árni Aðalsteinsson reyndist hetja heimamanna í dag en hann skoraði bæði mörk þeirra í dag.
Sigurmarkið kom þegar 95 mínútur voru komnar á klukkuna þar sem hann skallaði fyrirgjöf varamannsins Steinþórs Freys Þorsteinssonar í netið og tryggði Völsungi 2-1 sigur. Annar sigur liðsins í röð og jafnframt annar sigur nýliðanna í deildinni í sumar.