Þetta kemur fram í rannsókn bresku samtakanna Cancer Research UK (CRUK) sem eru stærstu sjálfstæðu krabbmeinsrannsóknasamtök í heimi.
Gögn samtakanna frá 2018 til 2021 sýna að 40 prósent sortuæxla karlmanna greindust á búknum, það er bakinu, bringunni eða maganum, meira en á nokkrum öðrum stað líkamans. Í Bretlandi samsvaraði það um 3.700 krabbameinstilfellum ár hvert.
Sömu gögn sýndu að rúmlega þriðjungur, eða 35 prósent, sortuæxla hjá konum fannst á neðri útlimum frá mjöðum til fóta. Um 3.200 tilfelli ár hvert í Bretlandi.
Karlar frekar berir að ofan, konur frekar berleggja
Samanburður á líkamssvæðunum sýnir betur muninn milli kynjanna. Neðri útlimir og mjaðmir eru algengustu svæðin hjá konum en þau óalgengustu hjá körlum, þar greinast aðeins 13 prósent sortuæxla hjá körlum. Þá greinast 40 prósent sortuæxla á búkum karla en aðeins 22 prósent sortuæxla á búkum kvenna.
Talið er að muninn megi helst rekja til ólíkrar hegðunar hvað varðar sólina. Karlar eru líklegri til þess að vera berir að ofan í sól meðan konur eru líklegri til að klæðast stuttum buxum eða pilsum þegar hlýnar. Að minnsta kosti í Bretlandi.
Samkvæmt rannsókninni má rekja 87 prósent sortuæxla til útfjólublárrar geislunar frá sólinni.
Sortuæxli náðu sögulegu hámarki í Bretlandi í fyrra. Þar af fjölgaði sortuæxlum um 57 prósent há fólki yfir áttræðu. Talið er að sortuæxli í ár verði 22 prósentum fleiri en árið 2023 og muni aftur ná sögulegu hámarki.