Sósíalistaflokkurinn birti í dag formleg úrslit kosninga og atkvæðagreiðslna sem fóru fram á hitafundi flokksins um helgina. Þar tókust á tvær fylkingar, önnur tengd ungliðahreyfingu flokksins en hin Gunnari Smára Egilssyni, formanns framkvæmdastjórnar flokksins frá upphafi.
Gunnar Smári náði ekki kjöri og Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi flokksins, sagði sig frá trúnaðarstörfum eftir fundinn þrátt fyrir að hafa verið sögð kjörin pólitískur leiðtogi hans þar. Engar upplýsingar koma fram í tilkynningu Sósíalistaflokksins um kjör pólitísks leiðtoga á fundinum.
Fyrir fundinn dreifði hópur sem var ósáttur við stjórnarhætti í flokknum undir forystu Gunnars Smára leiðbeiningum til stuðningsmanna sinna um hvernig þeir ættu að kjósa í stjórnir og um tillögur að lagabreytingum.

Úrslitin í kosningum til framkvæmdastjórnar, málefnastjórnar og kosningastjórnar á aðalfundinum voru nær samhljóða þeim leiðbeiningum sem hópurinn gaf út. Allir frambjóðendur hópsins náðu kjöri og í þeirri röð sem þeim var raðað í leiðbeiningunum nema í kosningastjórn þar sem röðin riðlaðist aðeins. Allir frambjóðendur hópsins til varasæta komust einnig að.
Alls tóku 382 af 2.448 félögum sem voru með kosningarétt þátt í aðalfundinum. Það gerir 15,6 prósent atkvæðabærra sósíalista.
Tillögum stjórna hafnað
Þá hafnaði fundurinn þeim lagabreytingatillögum og tillögum að ályktunum sem þáverandi stjórnir flokksins lögðu til.
Tillaga frá þá sitjandi kosningastjórn um störf hennar var felld og sömuleiðis tillaga framkvæmdastjórnar um að vekja upp svonefnda baráttustjórn til þess að finna út hvernig Sósíalistaflokkurinn gæti best stutt við bakið á myndun, uppbyggingu og endurreisn hagsmunahópa almennings.
Hins vegar var lagabreytingatillga sem félagsmenn á Norðurlandi eystra lögðu fram um svæðisfélög og tillaga ungliðahreyfingarinnar Roða um trúnaðarráð flokksins samþykktar líkt og lagt var upp með í leiðbeiningunum sem voru gefnar út fyrir aðalfundinn.
Í leiðbeiningunum sem voru gefnar út var fólki sagt að kjósa eftir eigin sannfæringu um ályktanir sem voru lagðar fyrir fundinn.
Þrjár ályktanir af fimm sem voru háðar samþykkt tillögu kosningarstjórnar um breytingu á lögum flokksins og voru því ekki teknar til atkvæða eftir að hún var felld. Fundurinn samþykkti hins vegar ályktun um blandaða leið fyrir framboðslista en hafnaði ályktun um úthlutun ríkisstyrks til flokksins.