Allt starfsfólk Félagsbústaða fyrir utan þrjá stjórnendur skrifaði undir yfirlýsingu um vantraust á hendur Sigrúnu eftir að hún rak starfsmann fyrir allra augum á starfsmannafundi í febrúar. Stjórn Félagsbústaða fékk í kjölfarið mannauðsfyrirtæki til þess að gera almennt áhættumat á vinnustaðnum og komust ráðgjafar þess að þeirri niðurstöðu að vantraust starfsfólks til framkvæmdastjórnar væri alvarlegt.
Ellý Þorsteinsdóttir, formaður stjórnar Félagsbústaða, greindi starfsfólki stofnunarinnar frá því á fundi sem boðaður var með skömmum fyrirvara á föstudag að stjórnin hefði ákveðið að Sigrún yrði áfram framkvæmdastjóri. Sigrúnu yrði jafnframt falið að leiða umbætur á skrifstofunni. Henni til fulltingis yrði ráðinn mannauðsfulltrúi til tveggja ára samkvæmt heimildum Vísis.
Fundargerð stjórnar af fundinum þar sem þetta var ákveðið hefur enn ekki verið birt. Þegar blaðamaður náði tali af Ellý formanni í hádeginu í dag sagðist hún ekki hafa tíma til að ræða um málið. Ekki náðist í hana aftur við vinnslu þessarar fréttar.
Félagsbústaðir eru sjálfseignastofnun sem er að öllu leyti í eigu Reykjavíkurborgar. Hún heldur utan um þúsundir félagslegra íbúða sem félagsþjónusta borgarinnar úthlutar og sýslar þannig með margmilljarða króna eignir.
Hafa áhyggjur af mannauðsmálum og velferð starfsfólks
Kári Sigurðsson, formaður Sameykis, sat kynningarfundinn fyrir viku að ósk starfsfólks Félagsbústaða. Hann segir félagið hafa óskað eftir fundi með fulltrúum Reykjavíkurborgar sem er eigandi félagsbústaða.
„Við höfum óskað eftir fundi af því að við höfum mjög miklar áhyggjur af mannauðsmálum hjá Félagsbústöðum. Við höfum áhyggjur af velferð starfsfólks félagsbústaða,“ segir Kári við Vísi.
Sigrún var ráðin framkvæmdastjóri Félagsbústaða eftir að forveri hennar sagði af sér vegna hundruð milljóna króna framúrkeyrslu við framkvæmdir í Breiðholti árið 2019. Hún var áður bæjarstjóri Sandgerðis í tíð meirihluta Samfylkingarinnar og óháðra. Áður var hún framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi til fjölda ára.