Valur Páll Eiríksson skrifar frá Glasgow
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands, greindi frá þessu á blaðamannafundi á þjóðarleikvangi Skota í dag en Ísland hafði þá nýlokið æfingu á vellinum.
Jóhann Berg missti af leikjum Íslands við Kósóvó í mars. Hann kom inn í hópinn fyrir síðari leikinn en meiðsli voru þá enn að hrjá hann og gat Jóhann því ekki tekið þátt.
Óvíst er um alvarleika meiðslanna en Arnar útilokaði þó þátttöku Jóhanns á morgun. Ekki liggur fyrir hvort hann geti tekið þátt þegar Ísland mætir Norður-Írlandi í Belfast á þriðjudaginn kemur.
Jóhann Berg hefur spilað 99 landsleiki fyrir Íslands hönd og biðin eftir leik númer 100 lengist því um sinn.
Leikur Skotlands og Íslands er klukkan 18:45 annað kvöld. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsending klukkan 18:20.