Robertson og félagar í skoska landsliðinu eru í 44. sæti heimslistans, þrjátíu sætum fyrir ofan Ísland.
Skotar léku í A-deild Þjóðadeildar í fyrra en féllu úr henni eftir umspilsleiki við Grikkland í mars, á sama tíma og Ísland féll niður í C-deild með tapi gegn Kósovó.
Vísir spurði Robertson út í andstæðinga kvöldsins en hann nefndi enga sérstaka leikmenn sem Skotar yrðu að varast:
„Þeir skiptu auðvitað um þjálfara fyrir ekki svo löngu og voru slegnir út í umspilinu eins og við. Þeir eru augljóslega ósáttir eins og við. Þetta verður erfitt próf,“ sagði Robertson en viðtalið við hann í heild má sjá hér að neðan.
Ísland er í leit að sínum fyrsta sigri undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar, eftir vægast sagt slæma byrjun í leikjunum gegn Kósovó í mars. Robertson er hins vegar ekki með neitt vanmat fyrir kvöldið:
„Við vitum að þetta er gott lið. Þeir vilja pressa, koma framar og koma boltanum inn í teiginn, og það reynir á okkur að vera upp á okkar besta.
Fyrir framan okkar fólk viljum við auðvitað reyna að vinna leikinn og ná okkur á skrið. En það verður erfitt. Þeir munu gera okkur það erfitt. Ég er viss um að þeir munu vilja eins og við ná sér vel á strik en við ætlum að koma í veg fyrir það,“ sagði Robertson en viðtalið við hann má sjá hér að ofan. Þar er hins vegar ekkert rætt um viðkvæma stöðu Skotans hjá Liverpool því óskað var eftir því að hún yrði ekki rædd.