Fréttastofa setti sig í samband við séra Bjarna Þór Bjarnason, sóknarprest í Seltjarnarneskirkju, sem er með fróðari mönnum um málefni heilags anda. Hann segir heilagan anda vera þennan mikla kraft sem dvelur í kristnum mönnum sem hefur fylgt þeim frá upphafi. Hann sé kraftur friðar og kærleika.
Stofnfundi kristinnar kirkju fagnað
Séra Bjarni segir að saga þessa helgidags sé rakin í postulasögunni sem er fimmta bók hins Nýja testamentis og er eignuð Lúkasi guðspjallamanni. Þar segir að á fyrstu hvítasunnunni hafi allir postularnir saman komnir.
„Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.,“ skrifar guðspjallamaðurinn.

Hópnum brá mjög því allir töluðu þeir á móðurmáli sínu en allir skildu hverjir aðra.
„Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs,“ stendur skrifað.
„Þetta er bara eins og að þú færir að tala arabísku og ég myndi skilja!“ segir séra Bjarni.
Hvítasunnudagur er haldinn fimmtíu dögum eftir páska. Á útlensku er talað um fimmtíu daga hátíðina, pentecost á ensku og pinse á dönsku til að mynda. Það er komið úr grísku πεντηκοστή [ἡμέρα] sem merkir fimmtugasti(dagur). Litur hátíðarinnar er rauður, litur blóðs og baráttu en litur jólanna, fæðingarhátíðarinnar, og páskanna, upprisuhátíðarinnar er hvítur.
Hvítasunnudagur er kallaður þessi nafni, segir Bjarni, vegna þess að til forna var hefð fyrir því að fólk skírðist á hvítasunnunni og þegar fólk hafði tekið skírn var það í hvítum fötum í viku eftir skírnina sem tákn um hreinlæti.
Helgur andi hafi fylgt kristnum mönnum frá upphafi
Bjarni segir heilagan anda hafa komið yfir spámennina í gamla testamentinu og að Jesús hafi gefið lærisveinum sínum heilagan anda með því að anda á það, frá þessu öllu segi í guðspjöllunum.
„Heilagur andi sem er þessi mikli kraftur hjá kristnum mönnum,“ segir hann.

„Bænin „Kom helgur andi“ hefur fylgt kristnum mönnum frá upphafi og heilagur andi kemur um leið og hann er beðinn um að koma. Ég hef margséð þetta. En ef að það eru einhverjar deilur eða illindi þá fer hann. þetta er andi friðar og kærleika, andi Jesú,“ segir séra Bjarni.
„Þar sem friður ríkir og fólki líður vel saman þar er heilagur andi,“ segir séra Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur í Seltjarnarneskirkju.