„Ég fann fyrir þeim í upphitun og var búinn að finna fyrir þeim í svolítinn tíma, en ég myndi spila fótbrotinn fyrir landsliðið. Þetta var leikur upp á titil, ég þurfti að spila og gefa allt í þetta“ sagði Ronaldo sem skoraði 2-2 jöfnunarmark Portúgal en fór út af tveimur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.
„Þetta var fyrir þjóðina. Við erum smá þjóð, en stórhuga. Við sækjumst alltaf eftir árangri. Nú er tími til að hvíla sig, ég var meiddur og gaf allt sem ég átti, allt“ sagði Ronaldo einnig.
Leikurinn fór svo í framlengingu og vítaspyrnukeppni án hans en liðsfélagarnir tryggðu titilinn með 5-3 sigri í vítaspyrnukeppni. Þetta er þriðji titillinn sem Portúgal hefur unnið á eftir EM 2016 og Þjóðadeildinni 2019.

Ronaldo hefur sjálfur unnið töluvert fleiri titla með sínum félagsliðum en segir sætara að fagna sigri með samlöndum.
„Börnin og konan eru hér með mér, bróðir minn og vinir mínir. Að vinna með Portúgal er alltaf sérstök stund. Ég hef unnið titla með félagsliðum en það toppar ekkert titlana með Portúgal. Þeim fylgja tár. Við höfum sinnt okkar skyldum og skulum fagna“ sagði Ronaldo sem hefur ekki enn gefið út sitt næsta skref á ferlinum.
Samningur hans við Al-Nassr í Sádi-Arabíu er að renna út um mánaðamótin og óvíst er hvort hann framlengi. Ronaldo hefur þó gefið út að hann muni ekki leita sér að liði sem tekur þátt í HM félagsliða. Væntanlega tekur hann sér nú sumarfrí og jafnar sig af meiðslum áður en lokaákvörðun verður tekin.