Það verður ekki sagt að Thomas Tuchel hafi stillt upp slöku Englandsliði í kvöld þó um vináttulandsleik hafi verið að ræða. Það virtist sem hann hefði hitt á rétta blöndu þegar Harry Kane kom Englandi yfir strax á 7. mínútu eftir undirbúning Anthony Gordon.
Þegar fimm mínútur voru til loka fyrri hálfleiks jafnaði Ismaïla Sarr metin eftir undirbúning Nicolas Jackson. Staðan 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja. Þegar rúm klukkustund var liðin komst Senegal yfir. Habib Diarra með markið eftir stoðsendingu Kalidou Koulibaly.
Á 84. mínútu hélt Jude Bellingham að hann hefði jafnað metin en markið var dæmt af eftir að myndbandsdómari leiksins hafði skoðað það betur. Boltinn hafði farið í hendina á Bellingham í aðdraganda marksins.

Í uppbótartíma tryggði Cheikh Sabaly sigur gestanna eftir undirbúning Lamine Camara. Lokatölur 1-3 og sæti Tuchel strax orðið heitt eftir gríðarlega ósannfærandi 1-0 útisigur á Andorra í undankeppni HM fyrir nokkrum dögum síðan.