„Skipstjórinn hélt þetta hefði komið klukkan sjö í morgun, þá fann hann að það hefði komið eitthvað framan á,“ segir Víðir Gunnarsson, starfsmaður Smyril line cargo.
Hann segir að skipstjórinn hafi siglt skipum í þrjátíu ár en aldrei lent í þessu áður.
Hvalurinn, sem er hnúfubakur, hafi sennilega verið hálfdauður eða dauður þegar hann lenti framan á skipinu.

„Annars hefði hann sennilega forðað sér, held það sé ekki algengt að menn sigli á lifandi hval,“ segir Víðir.
„Það var bara bundið í sporðinn á honum, svo var hann hífður með gröfu eins og hægt var og bundinn við bryggju.“
Hann segir að búið sé að hafa samband við Landhelgisgæsluna.
„Ég veit ekki hvort þeir eigi að koma hingað og draga hann út eða eitthvað, er ekki viss.“
„Annars vorum við að spá hvort að Færeyingarnir í Norrænu vildu ekki bara hirða hann,“ sagði Víðir.
