Logi hefur staðið sig vel hjá Strömsgodset undanfarin tvö tímabil, var eftirsóttur af þónokkrum félögum en ákvað að semja við Samsunspor í Tyrklandi.
„Þeir voru búnir að sýna áhuga lengi, á endanum fór þetta í gegn og ég er mjög spenntur… Svosem ekki [erfitt að velja á milli], þegar þetta kom upp vildi ég bara klára það“ sagði Logi.
Vitað er að Freyr Alexandersson, þjálfari Brann í Noregi, hefur miklar mætur á Loga og vildi fá hann til liðsins.
„Ég veit ekki hversu nálægt það var, en það var alveg nálægt. En þegar Tyrkland kom upp vildi ég bara fara þangað, að spila í Evrópu með þeim er auðvitað mjög stórt þannig að þetta er mjög gott skref fyrir minn feril. Ég vona bara að ég komist strax inn í hlutina og nái að sýna mitt rétta andlit í Tyrklandi.“
Samsunspor hefur verið í uppbyggingarfasa undanfarin ár eftir mikla lægð árin áður, liðið hefur unnið sig upp um tvær deildir og tryggði sér á síðasta tímabili þriðja sæti úrvalsdeildarinnar og þar með þátttökurétt í annað hvort Evrópudeildinni eða Sambandsdeildinni á næsta tímabili, eftir því hvernig umspilið fer í haust.
„Það spilaði mikið inn í. Ennþá meiri möguleikar fyrir mig til þess að sýna mig í Evrópu, það spilaði alveg stóra rullu í því“ sagði Logi sem á von á töluverðri breytingu við búferlaflutninginn frá Noregi til Tyrklands.

Logi hitti eiganda og forseta félagsins í höfuðborg Tyrklands, Istanbul, og skrifaði undir fjögurra ára samning við Samsunspor, en hefur ekki enn heimsótt borgina Samsun.
„Ég veit ekkert alltof mikið en ég er bara spenntur að fara að kynna mér og sjá borgina betur, skoða íbúðir og hvar er best að búa… Þetta er allt eins fyrir mér, að búa einhvers staðar úti í heimi“ sagði Logi en viðtalið við hann má sjá í spilaranum að ofan.